Börn. Forsjá, umgengni og meðlagsgreiðslur.

(Mál nr. 6918/2012)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og gerði athugasemdir við framkvæmd stjórnvalda í máli sem varðaði umgengnis- og forsjárdeilu hans, en hann taldi framkvæmdina fela í sér brot á jafnrétti. Í kvörtuninni sagði að A hefði farið í utanlandsferð með barnsmóður sinni og dóttur en barnsmóðirin hefði ekki viljað fara aftur til Íslands. Hann hefði m.a. orðið fyrir ofbeldi af hennar hálfu og hefði talið aðstæðurnar óásættanlegar fyrir barnið og því farið með það til Íslands. A taldi sig mega eiga von á ákæru fyrir mannrán.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 27. mars 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Þar sem ekki varð séð að í málinu lægi fyrir tiltekin athöfn eða ákvörðun stjórnvalds sem fæli í sér beitingu stjórnsýsluvalds fékk umboðsmaður ekki séð að uppfyllt væru lagaskilyrði fyrir því að taka málið til meðferðar að svo stöddu. Umboðsmaður benti A hins vegar á að þar sem erindi hans væri einnig beint til stjórnvalda, þ. á m. velferðarráðuneytisins og innanríkisráðuneytisins, kynnu viðbrögð þeirra að leiða til þess að hann gæti leitað til sín á ný að fenginni niðurstöðu þeirra.

Umboðsmaður benti A einnig á að ef hann væri ósáttur við þá meðferð sem hann fékk hjá utanríkisþjónustunni vegna málsins, en hann gerði m.a. athugasemdir við samskipti sín ræðismann Íslands í tilteknu ríki, gæti hann leitað til utanríkisráðuneytisins vegna þess, sbr. lög nr. 39/1971, um utanríkisþjónustu Íslands.

Að lokum, og í tilefni af því að af erindi A varð ráðið að hann óskaði atbeina umboðsmanns til að tryggja að hann nyti jafnræðis við ákvörðun um forræði og umgengni við dóttur sína, benti umboðsmaður á að um meðferð máls vegna mögulegrar beiðni móðurinnar um afhendingu barnsins samkvæmt Haagsamningnum, um einkaréttarleg áhrif af brottnámi til flutnings milli landa, færi eftir lögum um aðför, en þó þannig að beiðni um aðfaragerð sætti alltaf í byrjun meðferð fyrir dómi samkvæmt ákvæðum 13. kafla þeirra laga, sbr. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 160/1995, um viðurkenningu og fullnustu erlendra ákvarðana um forsjá barna, afhendingu brottnuminna barna o.fl. Í c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997 væri kveðið á um að starfssvið umboðsmanns tæki ekki til ákvarðana og annarra athafna stjórnvalda þegar samkvæmt beinum lagafyrirmælum væri ætlast til að menn leituðu leiðréttingar með málskoti til dómstóla. Ákvarðanir sem vörðuðu brottflutning barns milli landa í óþökk foreldris féllu því utan við starfssvið umboðsmanns. Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu.