Fangelsismál. Frestun afplánunar.

(Mál nr. 6693/2011)

Hinn 23. október 2011 kvartaði A yfir því að hafa ekki fengið formlegt svar frá Fangelsismálastofnun ríkisins vegna erindis, dags. 21. ágúst 2011, varðandi beiðni um frest á að hefja afplánun fangelsisrefsingar. Svör höfðu verið veitt símleiðis.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 20. mars 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í skýringum fangelsismálastofnunar til umboðsmanns vegna málsins var gerð grein fyrir samtali starfsmanns fangelsismálastofnunar við A eftir að hann sendi erindi sitt og síðari samtölum og tölvupóstsamskiptum er leiddu til áframhaldandi frestunar á afplánun hans þar til honum var tilkynnt með óformlegum tölvupóstum að ekki kæmi til frekari frestunar. Í ljósi framkominna skýringa fangelsismálastofnunar taldi umboðsmaður ekki tilefni til að aðhafast frekar vegna kvörtunarinnar en minnti á að hann hefði einnig til meðferðar aðra kvörtun A yfir staðfestingu innanríkisráðuneytisins á ákvörðun fangelsismálastofnunar um að synja honum um frekari frestun á afplánuninni.

Þá ritaði umboðsmaður fangelsismálastofnun bréf þar sem hann minnti á þá óskráðu meginreglu að sá sem ber upp skriflegt erindi á almennt rétt á skriflegu svari. Umboðsmaður taldi jafnframt, með hliðsjón af þeim hagsmunum sem væru fólgnir í því að sá sem óskaði frestunar afplánunar velktist ekki í vafa um hver staða hans væri, að það væri í betra samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti að fylgja skriflega eftir þeim ákvörðunum sem tilkynntar væru munnlega og lúta að frestun afplánunar og væri það sérstaklega mikilvægt þegar beiðni um frestun væri synjað og þá með hliðsjón af 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hann benti einnig á að mætti dómþoli ekki til afplánunar á tilskildum tíma fæli fangelsismálastofnun lögreglu að handtaka hann og færa í fangelsi, sbr. 2. mgr. 10. gr. laga nr. 49/2005, um fullnustu refsinga, og því væri mikilvægt að ákvarðanir um hvenær afplánun skyldi hefjast væru skýrar og glöggar og tryggt væri að dómþoli væri sannanlega upplýstur um efni slíkra ákvarðana. Að lokum taldi umboðsmaður athugun sína á málinu og upplýsingar sem hann hafði fengið í áþekkum málum gefa sér tilefni til að árétta mikilvægi þess að fangelsismálastofnun fylgdi umræddum meginreglum og viðmiðunum um góða stjórnsýsluhætti í framtíðinni og benti á að að slík málsmeðferð væri til þess fallin að leggja traustari grundvöll að ákvörðunum fangelsismálastofnunar um fresti og öðrum hliðstæðum ákvörðunum.