Fangelsismál. Líkamsrannsókn.

(Mál nr. 6896/2012)

A, fangi, kvartaði yfir framkvæmd reglulegra þvagsýnataka sem voru þáttur í eftirliti vegna lyfjameðferðar. Í kvörtun hans sagði að þvagsýnatakan hefði verið framkvæmd af fangavörðum en ekki heilbrigðisstarfsfólki og að henni hefði iðulega fylgt niðurlægjandi líkamsleit.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni með bréfi, dags. 9. mars 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í ljósi 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, taldi umboðsmaður að afstaða fangelsismálastofnunar og síðan eftir atvikum innanríkisráðuneytisins, sbr. 76. gr. laga nr. 49/2005, um fullnustu refsinga, og 26. gr. stjórnsýslulaga, yrði að liggja fyrir áður en hann gæti fjallað um málið. Umboðsmaður lauk því meðferð sinni á málinu en tók fram að ef A teldi enn á rétt sinn hallað að fenginni niðurstöðu ráðuneytisins ætti hann kost á að leita til sín á ný.