Fangelsismál. Náðun.

(Mál nr. 6743/2011)

A kvartaði yfir afgreiðslu náðunarnefndar og innanríkisráðuneytisins á beiðni hans um náðun af fangelsisrefsingu vegna heilsufars. A gerði jafnframt athugasemdir við að svarbréf ráðuneytisins til hans væri ekki undirritað af nefndarmönnum í náðunarnefnd og taldi einnig að við afgreiðslu málsins hefði ekki átt að líta til skilorðsbundinna dóma sem hann hlaut fyrir meira en 16 árum síðan.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 15. mars 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður benti A á að náðunarnefnd léti innanríkisráðuneytinu aðeins í té rökstudda tillögu um afgreiðslu á tiltekinni náðunarbeiðni en endanleg ákvörðun væri hjá ráðuneytinu. Umboðsmaður taldi því ekki tilefni til að gera athugasemdir við það hvernig undirritun ákvarðana í máli A var háttað. Þá tók umboðsmaður fram að þrátt fyrir að sakaferill A hefði verið rakinn í höfnunarbréfi innanríkisráðuneytisins væri eingöngu vísað til máls sem A ætti ólokið í refsivörslukerfinu í niðurstöðu náðunarnefndar og því væri ljóst að eldri mál hefðu ekki haft þýðingu við ákvörðunartökuna. Í ljósi þess að í náðunarnefnd sæti einstaklingur með menntun og þekkingu í læknisfræði taldi umboðsmaður sig að lokum ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við það mat náðunarnefndar og ráðuneytisins að á hefði skort að heilsuástand A væri með þeim hætti að réttlætti veitingu náðunar hans. Hann benti A hins vegar á að í 15. gr. laga nr. 49/2005, um fullnustu refsinga, væri gert ráð fyrir þeim möguleika að fangi, sem glímir við heilsubrest, dvelji á heilbrigðis- eða meðferðarstofnun á refsitímanum, en tók fram að hann hefði ekki tekið afstöðu til þess hvort það ætti við um tilvik hans.