Húsnæðismál. Íbúðalánasjóður.

(Mál nr. 6783/2011)

Hinn 30. desember 2011 kvartaði A yfir því að hann ætti ekki kost á lánafyrirgreiðslu hjá Íbúðalánasjóði vegna útistandandi veðkröfu sem hafði glatað veðtryggingu. Fasteign sem A átti og var veðsett til tryggingar kröfunni hafði verið seld á nauðungarsölu þremur árum áður en A skuldaði sjóðnum enn tiltekna fjárhæð. A gerði einnig athugasemdir við störf tiltekins sýslumannsembættis. Þá kvartaði A yfir því að hafa ekki fengið svör við erindum sínum, dags. 17. og 19. desember 2011, til bæjaryfirvalda í tilteknu sveitarfélagi.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 26. mars 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður taldi ekki nægjanlega langt um liðið frá því að A sendi bæjaryfirvöldum erindi sín til að tilefni væri til að óska eftir upplýsingum um afgreiðslu málsins. Hann óskaði hins vegar eftir upplýsingum um málið frá Íbúðalánasjóði.

Af gögnum málsins varð ekki skýrlega ráðið hvort A hefði borið erindi sitt formlega undir stjórn Íbúðalánasjóðs og í framhaldinu borið ákvörðun stjórnarinnar undir úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála, sbr. 42. gr. laga nr. 44/1998, um húsnæðismál. Í ljósi 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 taldi umboðsmaður sér því ekki unnt að fjalla um mál A að svo stöddu en benti honum á að freista þess að bera málið undir hlutaðeigandi stjórnvöld og tók jafnframt fram að hann gæti óskað eftir aðstoð þeirra við að leggja fram erindi sitt, sbr. leiðbeiningarskyldu 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Umboðsmaður taldi kvörtun A að því leyti sem hún sneri að sýslumanni óljósa en benti A þó á að innanríkisráðuneytið færi með yfirstjórn mála er vörðuðu sýslumenn, sbr. J-lið 5. gr. forsetaúrskurðar nr. 125/2011, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands og 5. gr. laga nr. 92/1989, um framkvæmdarvald ríkisins í héraði. Hann gæti því freistað þess að skýra erindi sitt nánar fyrir innanríkisráðuneytinu og fá afstöðu þess til umkvörtunarefnisins.

Umboðsmaður lauk umfjöllun sinni en tók fram að ef A teldi enn á rétt sinn hallað að fenginni úrlausn úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála eða innanríkisráðuneytisins ætti hann þess kost að leita til sín að nýju.