A kvartaði yfir afgreiðslu ríkissaksóknara og innanríkisráðuneytisins á máli er varðaði kæru á hendur honum fyrir uppflettingar í málaskrá lögreglu. Athugasemdir A beindust að málshraða í málinu og tímasetningu á niðurfellingu málsins. Málið var fellt niður ellefu mánuðum eftir að ríkissaksóknari tók við málinu og skömmu eftir niðurstöðu Hæstaréttar í sakamáli á hendur honum, en A taldi að beðið hefði verið með afgreiðslu málsins þar til niðurstaða dómstólsins lá fyrir. A kvartaðu yfir afgreiðslu málsins til innanríkisráðuneytisins en það framsendi erindi hans til ríkissaksóknara.
Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 30. mars 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.
Eftir að hafa kynnt sér gögn málsins taldi umboðsmaður að af þeim mætti ráða að meðferð málsins hjá ríkissaksóknara hefði m.a. tekið svo langan tíma sem raunin varð vegna upplýsingaöflunar og álitamála um tæknileg atriði vegna málaskrár lögreglunnar og að þau atriði hefðu haft þýðingu við mat á sönnun um hugsanlegt refsinæmi háttsemi A. Að því gættu að niðurstaðan varð að aðhafast ekki frekar í málinu taldi umboðsmaður ekki tilefni til þess að fjalla frekar um þetta atriði í kvörtuninni og tók jafnframt fram að ef A teldi sig hafa orðið fyrir tjóni vegna tafanna væri það hlutverk dómstóla að fjalla um hugsanlega skaðabótaskyldu vegna þess, sbr. c-lið 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.
Umboðsmaður taldi ekki heldur tilefni til að fjallar frekar um meðferð innanríkisráðuneytisins á erindi A og benti m.a. á í því sambandi að sérstakar reglur giltu um eftirlit innanríkisráðherra með starfsemi ákæruvaldsins sem ætlað væri að varðveita sjálfstæði þess. Þá hefði ríkissaksóknari almennt eftirlit með framkvæmd rannsóknarúrræða samkvæmt sakamálalögum og því hefði verið verið eðlilegt af hálfu ráðuneytisins að framsenda ríkissaksóknara þann þátt erindis A er varðaði fyrirspurnir hans um hvort símar hans hefðu verið hleraðir.
Umboðsmaður lauk athugun sinni á málinu en ákvað þó að rita ríkissaksóknara bréf þar sem hann vakti athygli á nauðsyn þess að hraða afgreiðslu mála af þessu tagi hjá embættinu eins og kostur væri og tók fram að hann fengi ekki annað séð af gögnum málsins en að þrátt fyrir umrædda upplýsingaöflun hefði verið kostur á því að ljúka því fyrr gagnvart A.