Námslán og námsstyrkir. Synjað um námslán.

(Mál nr. 6253/2010)

A kvartaði yfir úrskurði málskotsnefndar LÍN þar sem staðfestur var úrskurður stjórnar LÍN um að hafna umsókn hennar um aukalán vegna röskunar á stöðu og högum vegna veikinda skólaárið 2008-2009.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 30. mars 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður vísaði til þess að samkvæmt gögnum málsins hefði LÍN fallist á að taka tillit til veikinda A við mat á námsárangri á skólaárinu 2008-2009 og veita henni lán sem samsvaraði 20 ECTS-einingum á grundvelli heimildar í grein 2.4.3 í úthlutunarreglum LÍN þar sem fjallað var um aukið svigrúm í námi vegna veikinda. Henni hefði því verið veitt lán vegna vorannar 2009 þrátt fyrir að hafa ekki skilað neinum námárangri á þeirri önn. Með vísan til þess að í grein 4.9. í úthlutunarreglum LÍN kom fram að heimilt væri að veita námsmanni aukalán yrði ófyrirsjáanleg röskun á stöðu og högum hans og „reglur sjóðsins [næðu] ekki til hennar að öðru leyti“ taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að gera athugasemd við þá niðurstöðu málskotsnefndarinnar að A ætti ekki rétt á aukaláni á grundvelli greinar 4.9 í úthlutunarreglunum enda hefði röskunin sem varð á stöðu A og högum að rekja til veikinda en um þær aðstæður væri sérstaklega fjallað í ákvæði 2.4.3. Þá benti umboðsmaður á að útborgun námslána vegna skólaársins 2008-2009 lauk 1. desember 2009 eða áður en A lagði fram umsókn sína um aukalán.

Umboðsmaður lauk meðferð sinni á málinu en ákvað þó að rita málskotsnefndinni bréf þar sem hann gerði tilteknar athugasemdir við meðferð nefndarinnar á máli A. Umboðsmaður taldi það annmarka á rökstuðningi fyrir niðurstöðu málskotsnefndarinnar að ekki hefði verið vikið að umræddu skilyrði í grein 4.9 í úthlutunarreglunum og því hvernig það átti við um aðstæður í máli A. Hann benti nefndinni því á að huga betur að efni rökstuðnings í hliðstæðum málum. Þá tók umboðsmaður fram að hann fengi ekki séð að sú túlkun málskotsnefndarinnar, að heimild samkvæmt gr. 4.9 í úthlutunarreglum LÍN væri takmörkuð við ófyrirsjáanlega röskun á stöðu eða högum haustið 2008 vegna hruns íslenska fjármálakerfisins, samrýmdist texta eða tilurð ákvæðisins. Í tilefni af því að umboðsmaður þurfti að ítreka fyrirspurn sína til málskotsnefndarinnar vegna málsins fjórum sinnum taldi hann að lokum rétt að koma þeirri ábendingu á framfæri að þess yrði framvegis gætt að svara fyrirspurnarbréfum hans fyrr og innan hæfilegs tíma frá því þau bærust.