Námslán og námsstyrkir. Synjað um námslán.

(Mál nr. 6842/2012)

A kvartaði yfir úrskurði málskotsnefndar Lánasjóðs íslenskra námsmanna (LÍN) þar sem staðfestur var úrskurður stjórnar LÍN um að synja umsókn hans um 30 ECTS- eininga námslán á þeim grundvelli að hann uppfyllti ekki skilyrði í úthlutunarreglum sjóðsins um námsframvindu. A átti færri einingum óloknum en skilyrði um lágmarksnámsframvindu segja til um, þ.e. færri en 18 ECTS-einingum.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 5. mars 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í ljósi umrædds ákvæðis í úthlutunarreglum LÍN taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við niðurstöðu málskotsnefndarinnar en vakti athygli A á ákvæðum í úthlutunarreglunum þar sem fram kemur að námsmenn sem ekki uppfylla skilyrði sjóðsins um lágmarksnámsframvindu geti sótt um undanþágu vegna nánar tilgreindra aðstæðna. Í þessu sambandi vakti umboðsmaður sérstaka athygli á ákvæði þar sem fram kemur að í tilvikum þegar námsmaður er að ljúka námi og á eftir færri einingar en skilyrði um lágmarksnámsframvindu segja til um sé heimilt að miða lánsrétt við lágmarkseiningafjölda bæti námsmaður við sig þeim einingum sem upp á vantar, óháð námsferlum og gráðu, og að A gæti leitað leiðbeininga LÍN um það hvernig undanþágunni hefði verið almennt beint, sbr. 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.