Námslán og námsstyrkir. Úthlutunarreglur.

(Mál nr. 6912/2012)

A kvartaði yfir úrskurði málskotsnefndar Lánasjóðs íslenskra námsmanna þar sem synjun stjórnar LÍN á beiðni hans um undanþágu frá kröfum um námsframvindu vegna veikinda var felld úr gildi á grundvelli þess að ekki hefði verið gætt að leiðbeiningarskyldu, rannsóknarreglu og reglum um efni rökstuðnings við meðferð stjórnarinnar á málinu. A taldi engu að síður að ekki hefði verið fjallað um ýmis álitaefni sem hann hefði borið upp í rökstuðningi til nefndarinnar og að málshraðaregla hefði ekki virt án þess að skýringar hefðu verið veittar á því.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 26. mars 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Þar sem málskotsnefndin hafði fellt úrskurð í máli A úr gildi og beint því til stjórnar LÍN að taka mál hans til nýrrar meðferðar taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að fjalla frekar um mál A eða gera athugasemdir við að nefndin hefði ekki tekið allar athugasemdir A til umfjöllunar í úrskurði sínum, enda hafði kæra hans beinst að því að ekki hefði verið rétt að synja sér um undanþáguna. Þar sem málið hafði verið tekið til nýrrar meðferðar taldi umboðsmaður ekki heldur tilefni að þessu sinni til að gera sérstakar athugasemdir við þann tíma sem meðferð málsins hjá málskotsnefnd LÍN tók. Umboðsmaður lauk meðferð sinni á kvörtuninni en tók fram að A gæti leitað aftur til sín að fenginni niðurstöðu í málinu yrði hann ósáttur við meðferð þess, að því tilskildu að kæruleiðir innan stjórnsýslunnar hefðu verið tæmdar. Þá gæti hann snúið sér til sín ef hann teldi frekari óeðlilegar tafir verða á afgreiðslu málsins.