Hinn 9. ágúst 2011 kvartaði A yfir því að hafa ekki borist skýringar frá ríkislögreglustjóra á því hvers vegna sér hefði verið skipað í annan launaflokk en tilteknum samstarfsmanni sínum. A taldi einnig að sér væri mismunað við grunnröðun launa og gerði jafnframt athugasemdir við röðun sína í launaflokk.
Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 20. mars 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. og c-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.
Umboðsmaður fékk ekki annað séð en að þau umkvörtunarefni A er lutu að röðun hans í launaflokk, mismunun hvað þá flokkun varðaði og tiltekið ákvæði í stofnanasamningi ríkislögreglustjóra vörðuðu túlkun á ákvæðum kjarasamnings og stofnanasamnings. Í því sambandi tók umboðsmaður fram, með vísan til c-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, að hann teldi rétt að umboðsmaður Alþingis fjallaði almennt ekki um slík mál heldur yrði það að vera hlutverk dómstóla. Hann taldi því ekki grundvöll fyrir frekari afskiptum sínum af þessum þáttum kvörtunarinnar, en benti A á að hann eða stéttarfélag hans gæti borið málið undir Félagsdóm, sbr. 3. tölul. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Þá væri gert ráð fyrir því í viðkomandi stofnanasamningi að sérstök samstarfsnefnd fjallaði um ágreiningsmál sem upp kynnu að koma vegna framkvæmdar samningsins.
Vegna árangurslausrar viðleitni A til að afhent gögn frá stéttarfélagi um tiltekin samskipti þess við ríkislögreglustjóra benti umboðsmaður honum á að hann gæti leitað sérstaklega til ríkislögreglustjóra með beiðni um aðgang að gögnunum. Færi svo að honum yrði synjað um aðganginn bæri að leiðbeina honum um hvort hann gæti borið synjunin undir innanríkisráðuneytið eða úrskurðarnefnd um upplýsingamál, en það færi eftir því á hvaða lagagrundvelli slík synjun byggðist. Að fenginni úrlausn annars hvors aðilans gæti hann leitað til sín með sérstaka kvörtun ef hann teldi sig enn beittan rangsleitni að þessu leyti.
Vegna athugasemda A sem beindust að tilteknu stéttarfélagi tók umboðsmaður fram að félagið væri ekki stjórnvald í skilningi stjórnsýsluréttar og starfsemi þess teldist ekki til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga. Því félli sá þáttur kvörtunarinnar ekki undir starfssvið umboðsmanns, sbr. 2. og 3. gr. laga nr. 85/1997.
Að lokum kom fram í skýringum ríkislögreglustjóra til umboðsmanns að A hefði verið gerð grein fyrir röðun sinni í launaflokk bæði skriflega og munnlega og jafnframt gerð munnleg grein fyrir því að samstarfsmanni hans hefði fyrir mistök verið raðað einum launaflokki hærra. Þrátt fyrir að af gögnum málsins yrði ekki séð að A hefðu verið veittar skriflegar skýringar á röðun sinni í launaflokk í samanburði við röðun samstarfsfélaga sinn taldi umboðsmaður, með tilliti til þess hvernig málið var vaxið að öðru leyti, ekki ástæðu til að aðhafast sérstaklega vegna þessa atriðis í kvörtun A. Hann lauk því umfjöllun sinni um málið en ritaði ríkislögreglustjóra þó bréf þar sem hann benti á þá óskráðu meginreglu stjórnsýsluréttar að hver sá, sem ber fram skriflegt erindi, við stjórnvald eigi rétt á því að fá skriflegt svar nema svars sé ekki vænst, og áréttaði mikilvægi þess að ríkislögreglustjóri hefði þá reglu í huga við úrlausn hliðstæðra mála. Væri staðan enn sú að erindi A hefði ekki verið svarað skriflega minnti umboðsmaður á að þessari meginreglu yrði að fylgja.