Skráning og meðferð persónuupplýsinga. Birting á persónulegum fjárhagsmálefnum einstaklinga í skrá sem unnin var kerfisbundið úr álagningarskrám. Gildissvið stjórnsýslulaga. Andmælaréttur.

(Mál nr. 1299/1994)

M, héraðsdómslögmaður, leitaði til mín fyrir hönd fimm einstaklinga vegna afstöðu tölvunefndar, er fram kom í bréfi nefndarinnar til M. Beindist kvörtun umbjóðenda M að birtingu á persónulegum fjárhagsmálefnum þeirra í skrá, sem unnin hafði verið kerfisbundið um 650 einstaklinga og birt í tilteknu tölublaði tímaritsins X árið 1994. Ekki varð ráðið, að umræddir einstaklingar hefðu veitt samþykki sitt til þess að upplýsingarnar yrðu birtar og ekki varð séð að útgefandi X hefði fengið sérstakt leyfi tölvunefndar til skráningar þeirra. Tók M fram, að þegar litið væri til þeirra upplýsinga, sem safnað hafði verið, úrvinnslu þeirra og samanburður við eldri upplýsingar um fjárhagsmálefni, væri farið langt út fyrir þann ramma, sem ákvæði 98. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 8. gr. laga nr. 7/1984, veitti einkaaðilum til að halda skipulagsbundnar skrár um og miðla upplýsingum úr þeim. Loks kvartaði M yfir meðferð tölvunefndar á málinu. Hefði honum ekki verið veitt færi á að tjá sig fyrir hönd umbjóðenda sinna um umsögn ríkisskattstjóra, sem aflað hafði verið, áður en málinu hafði verið ráðið til lykta. Taldi M að með þessu hefði verið brotið gegn 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Í bréfi er umboðsmaður ritaði M kom fram, að málið hefði verið lagt fyrir tölvunefnd á mjög almennum grundvelli um rétt fjölmiðla til þess að fjalla um upplýsingar úr álagningarskrá. Svör tölvunefndar hefðu því af þessum sökum verið almenn. Umboðsmaður var sammála þeirri afstöðu tölvunefndar, að upplýsingar, sem fram kæmu í álagningarskrá og skattskrá féllu undir ákvæði laga nr. 121/1989, um skráningu og meðferð persónuupplýsinga. Samkvæmt 2. mgr. 98. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 8. gr. laga nr. 7/1984, væri ótvírætt og óumdeilt, að heimilt væri að birta opinberlega upplýsingar úr skattskrá. Á hinn bóginn giltu aðrar reglur um álagningarskrá. Um meðferð þeirra upplýsinga, er fram kæmu í þeirri skrá færi eftir lögum nr. 121/1989, að svo miklu leyti, sem ekki væri mælt á annan veg í öðrum lögum. Í því sambandi bæri að minna á, að í 1. mgr. 98. gr. laga nr. 75/1981 væri lögboðið, að leggja skyldi álagningarskrá fram til sýnis. Þegar sýningu álagningarskrár lyki í skjóli þessa sérákvæðis færi um aðgang að skránni og meðferð upplýsinga úr henni að öðru leyti samkvæmt almennum reglum, er giltu um skráningu og meðferð persónuupplýsinga samkvæmt lögum nr. 121/1989. Umboðsmaður taldi ekki vera tilefni til athugasemda við afstöðu tölvunefndar er fram kæmi í bréfum nefndarinnar til M og í skýringum hennar til umboðsmanns. Þá taldi umboðsmaður, að eins og málið hefði verið lagt fyrir tölvunefnd, væri ekki þörf á að taka til nánari umfjöllunar þær réttarreglur, er giltu um umfjöllun og meðferð upplýsinga úr álagningarskrá í fjölmiðlum, meðan skráin lægi frammi til sýnis skv. 1. mgr. 98. gr. laga nr. 75/1981.
Að því er laut að þeim þætti kvörtunar M, að honum hefði ekki verið veitt færi á að tjá sig fyrir hönd umbjóðenda sinna um umsögn ríkisskattstjóra, tók umboðsmaður fram, að með erindi umbjóðenda M hefði tölvunefnd verið krafin um lögfræðilegt álit um túlkun ákvæða 1. mgr. 98. gr. laga nr. 75/1981 gagnvart lögum nr. 121/1989, án þess að það tengdist úrlausn tiltekins og fyrirliggjandi máls, sem umbjóðendur M hefðu verið aðilar að, en stjórnvöldum væri í ýmsum tilvikum skylt að veita upplýsingar um réttarreglur á starfssviði þess. Það var niðurstaða umboðsmanns, að eins og málið hefði verið lagt fyrir tölvunefnd, hefði ekki falist í áliti nefndarinnar bindandi úrlausn um réttindi og skyldur umbjóðenda M í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í bréfi mínu til M, dags. 22. júní 1995, sagði meðal annars:

"I.Ég vísa til kvörtunar þeirrar, sem þér báruð fram hinn 6. desember 1994, f.h. [A], [B], [C], [D] og [E] vegna afstöðu tölvunefndar, sem fram kom í bréfi hennar til yðar, dags. 5. október 1994, í tilefni af fyrirspurn yðar, dags. 15. júní, og erindi yðar, dags. 20. júlí 1994. Ég skil kvörtun umbjóðenda yðar svo, að hún beinist að birtingu á persónulegum fjárhagsmálefnum þeirra í skrá, sem unnin hefur verið kerfisbundið um 650 einstaklinga og birt í... tölublaði [X] árið 1994. Af kvörtuninni verður ráðið, að umræddir einstaklingar hafa ekki veitt samþykki sitt til þess að nefndar upplýsingar verði birtar. Þá verður ekki séð, að útgefandi tímaritsins [X] hafi fengið sérstakt leyfi tölvunefndar til skráningar upplýsinganna. Þá skil ég kvörtun umbjóðenda yðar svo, að með tilliti til þeirra upplýsinga, sem safnað hafi verið, úrvinnslu upplýsinganna og samanburðar við eldri upplýsingar um fjárhagsmálefni, telji þeir, að efni þeirrar skrár, sem birt var í fyrrnefndu tímariti, sé komið út fyrir þann ramma, sem ákvæði 98. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 8. gr. laga nr. 7/1984, veiti einkaaðilum heimild til að halda skipulagsbundnar skrár um slík fjárhagsmálefni og miðla upplýsingum úr þeim.

Þá er kvartað yfir meðferð tölvunefndar á máli þessu, meðal annars vegna þess að yður hafi ekki verið veitt færi á að tjá yður f.h. umbjóðenda yðar um umsögn ríkisskattstjóra frá 26. september 1994, sem aflað var af hálfu nefndarinnar, áður en málinu var ráðið til lykta. Teljið þér, að með þessu hafi verið brotið í bága við 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.II.

Hinn 14. febrúar 1995 ritaði ég tölvunefnd bréf og óskaði eftir því með vísan til 7. og 9. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, að tölvunefnd skýrði viðhorf sitt til kvörtunarinnar og léti mér í té gögn málsins.

Svör tölvunefndar bárust mér með bréfi, dags. 27. apríl 1995, en þar segir meðal annars svo:"Kvörtun [M] til yðar, hr. umboðsmaður, varðar niðurstöðu Tölvunefndar frá 5. október 1994. Það álitaefni, sem [M] bar undir Tölvunefnd og framangreind niðurstaða hennar lýtur að, varðar birtingu fjölmiðla á áætluðum tekjum tiltekinna einstaklinga almennt, en beindist ekki sérstaklega að umfjöllun [X] um það efni, eins og kvörtun hans til yðar virðist gera samkvæmt því, sem fram kemur í bréfi yðar. Það álitaefni, sem [M] bar undir Tölvunefnd, kemur upphaflega fram í bréfi hans, dags. 15. júní 1994, en þar segir m.a.:

"Um nokkurt skeið hefur það tíðkast, að ýmsir fjölmiðlar birti lista yfir áætlaðar tekjur ýmissa einstaklinga í þjóðfélaginu. Upplýsingar þessar eru yfirleitt birtar í kjölfar framlagningar álagningarskrár og eru tekjuáætlanirnar byggðar á upplýsingum um álögð gjöld á viðkomandi einstaklinga samkvæmt áðurnefndri skrá. Svo virðist sem fjölmiðlar taki út ákveðna starfshópa og velji síðan úr þá einstaklinga, sem birta á upplýsingar um. Upplýsingarnar eru síðan birtar ár eftir ár í ákveðnum fjölmiðlum og jafnvel bornar saman við næsta ár á undan."

Í niðurstöðu Tölvunefndar, dags. 18. júlí 1994, er vísað til 98. gr. skattalaga og tekið fram, að það ákvæði víki til hliðar hinum almennu ákvæðum laga nr. 121/1989 og heimili almennan aðgang að upplýsingum um álagða skatta og birtingu þeirra upplýsinga. Síðan segir í niðurstöðu nefndarinnar:

"Samkvæmt þessu, og með vísun til þess að nefndin telur það hvorki vera á sínu valdi að takmarka aðgang fréttamanna að framangreindum skrám, né notkun þeirra eða birtingu á þeim upplýsingum sem þar koma fram, sér Tölvunefnd eigi efni til frekari afskipta hennar af máli þessu."

Með bréfi, dags. 20. júlí 1994, fór [M] þess á leit við Tölvunefnd, að nefndin tæki mál hans til meðferðar að nýju, og var honum með bréfi nefndarinnar, dags. 15. ágúst s.á., tilkynnt, að nefndin hefði fallist á það. Í framhaldi af því óskaði Tölvunefnd eftir umsögn ríkisskattstjóra um málið. Í bréfi nefndarinnar til [M], dags. 5. október 1994, er umsögn ríkisskattstjóra rakin og honum tilkynnt, að nefndin sjái, m.a. með vísun til þeirra sjónarmiða sem þar greinir, ekki efni til að breyta fyrri afstöðu sinni.

[...]

Samkvæmt bréfi yðar, hr. umboðsmaður, til Tölvunefndar, beinist kvörtun [M] til yðar gagngert að birtingu upplýsinga um persónuleg fjárhagsmálefni í skrá, sem unnin hefur verið kerfisbundið á undanförnum árum um 650 einstaklinga og birt í [X], nú síðast í... tbl. ársins 1994. Eins og áður segir varðar umrædd niðurstaða Tölvunefndar, sem [M] kvartar nú yfir til yðar, hins vegar einungis umfjöllun fjölmiðla um efni álagningarskráa almennt. Hefur nefndin því ekki tekið sérstaka afstöðu til þess einstaka tilviks, sem hér um ræðir, en ljóst er, að skráning og birting [X] hefur nokkra sérstöðu, bæði að því er varðar umfang skráningarinnar og birtingartíma, en umrætt tölublað kom ekki út fyrr um mánaðarmótin ágúst/september 1994, þ.e. u.þ.b. mánuði eftir að kærufrestur rann út. Hins vegar skarast mál þetta vissulega við bæði þau mál, sem Tölvunefnd hefur þegar tekið afstöðu til, þar sem í báðum tilvikum er um að ræða skráningu og meðferð upplýsinga, sem safnað hefur verið úr álagningarskrám, þótt atvik séu þar mismunandi, og nefndin hafi í öðru tilfellinu ekki séð efni til athugasemda, en í hinu talið, að umrædd skráning væri óheimil.

Tölvunefnd hefur nú í tilefni af fyrirspurn yðar, hr. umboðsmaður, tekið mál [X] til sérstakrar skoðunar. Fylgir afstaða nefndarinnar, sem hún komst að á fundi sínum þann 27. apríl sl., hér á eftir.

[...]

Umrædd skrá [X] yfir tekjur 650 einstaklinga er flokkuð eftir starfsgreinum. Flokkarnir eru 22, en mismunandi margir einstaklingar eru í hverjum flokki. Skráin hefur að geyma almennar upplýsingar um þróun tekna í hinum ýmsu flokkum, en þær upplýsingar, sem birtast um hvern einstakling, eru fyrst og fremst nafn hans, starfsheiti, heildartekjur ársins 1993, mánaðartekjur ársins 1993 og mánaðartekjur ársins 1993 umreiknaðar til verðlags á árinu 1994. Þá eru ákveðnir einstaklingar teknir út úr og sérstaklega fjallað um tekjur þeirra, t.d. hvort tekjurnar hafi hækkað eða lækkað milli ára og jafnvel af hvaða ástæðum.

Í formála skrárinnar kemur fram, að skráin fyrir árið 1994 sé sú viðamesta, sem gerð hafi verið. Á árinu 1993 hafi skráin náð til 517 einstaklinga, 450 einstaklinga árið 1992 og 300 einstaklinga árið 1991. Þá segir, að rétt sé að árétta, að könnunin sé vísbending - ekki stóridómur. Hún gefi þó sífellt heildstæðari mynd eftir því, sem úrtakið stækki. Í tekjusamanburði einstakra starfsgreina á milli ára sé þess vandlega gætt að skoða eingöngu tekjur sömu einstaklinga bæði árin. Það gefi bestu myndina. Ný nöfn á listanum geti því ekki ruglað samanburðinn milli ára, og þess vegna sé líka afar erfitt að detta út af listanum, séu menn einu sinni komnir inn á hann. Tekjurnar, sem birtist í könnuninni, séu skattskyldar tekjur. Um sé að ræða tekjur af aðalstarfi svo og allar aðrar tekjur, eins og eignatekjur, söluhagnað, reiknuð hlunnindi vegna afnota af fyrirtækjabílum, nefndarstörf, setu í stjórnum o.s.frv. Listinn segi því ekki til um föst laun, þótt ætla megi, að um góða nálgun sé að ræða.

[...]Um framlagningu álagningar- og skattskráa.

Það byggist á gamalli hefð, að skattyfirvöld afhendi fjölmiðlum upplýsingar um gjöld hæstu gjaldenda samkvæmt álagningu hvers árs. Má rekja þá framkvæmd allt aftur til ársins 1937. Hafa verður í huga í þessu sambandi, að fram til ársins 1979 voru einungis lagðar fram skattskrár, og var í lögum ekki gerður greinarmunur á skattskrá og álagningarskrá. Eftir það hefur hins vegar í lögum verið greint á milli álagningarskrár og skattskrár. Eins verður að hafa í huga í þessu sambandi, að af hálfu skattyfirvalda eru við lok álagningar engar upplýsingar veittar til fjölmiðla um hæstu gjaldendur, sem fjölmiðlarnir gætu ekki sjálfir aflað sér í framliggjandi skrám.

Með lögum nr. 40/1978, um tekjuskatt og eignarskatt, sem öðluðust gildi 1. janúar 1979, er fyrst greint á milli álagningarskrár og skattskrár. Segir í 2. mgr. 98. gr., að þegar lokið sé álagningu skatta og kærumeðferð, skuli skattstjórar semja og leggja fram skattskrá fyrir hvert sveitarfélag í umdæminu og skuli hún liggja frammi til sýnis í tvær vikur. Á árunum 1980 og 1981 voru álagningarskrár ekki lagðar fram, heldur aðeins skattskrár eftir afgreiðslu kæra, en árið 1982 og eftirleiðis hafa álagningarskrár verið lagðar fram. Einnig eru skattskrár viðkomandi skattárs lagðar fram, eftir að úrskurðum kæra er lokið, en það hefur yfirleitt ekki verið fyrr en u.þ.b. hálfu ári eftir framlagningu álagningarskrár, þ.e.a.s. í febrúar-mars á næsta ári.

Álagningarskrár hafa legið frammi lögskipaðan tíma, sem er tvær vikur að lágmarki, en að honum loknum hafa engar upplýsingar verið gefnar úr skránum af hendi skattstjóra. Samkvæmt upplýsingum ríkisskattstjóra hafa af hendi skattyfirvalda aldrei verið lagðar hömlur á, að upplýsingar séu ritaðar úr framliggjandi skrám, en þær hafa ekki verið lánaðar út frá skattstofunum til ljósritunar, hvorki í heild sinni né að hluta. Framangreindur úrskurður Tölvunefndar frá árinu 1982 í máli [Z], þ.e. sá þáttur hans, að ekki væri heimilt að gefa út skattskrá, þótti af ýmsum orka mjög tvímælis. Varð hann tilefni viðbragða af hálfu stjórnvalda og löggjafans, svo sem nánar verður rakið í því, sem hér fer á eftir...Lagabreytingin árið 1984.

Með 8. gr. laga nr. 7/1984, um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, var heimiluð opinber birting og útgáfa skattskráa. Aðdragandi þessa var sá, að á Alþingi (106. löggjafarþing 1983-1984) var af hálfu ríkisstjórnarinnar flutt frumvarp til laga um breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt (þskj. 164), og var það í 10 greinum. (Alþingistíðindi 1983-1984, þskj. 164, bls. 903.) Engin ákvæði var í frumvarpi þessu að finna um framlagningu og birtingu upplýsinga úr álagningar- og skattskrám.

Meiri hluti nefndarmanna í fjárhags- og viðskiptanefnd neðri deildar flutti við 2. umræðu tvær breytingartillögur við frumvarpið. Önnur snerti frádrátt fengins arðs, en hin var um framlagningu skattskrár (sjá nefndarálit á þskj. 238). Er í því sambandi vitnað til þess, að lagafrumvarp þessa efnis hafi ekki hlotið endanlega afgreiðslu á 105. löggjafarþinginu. (Um frumvarp það, sem flutt var á 105. löggjafarþinginu 1982, sjá Alþingistíðindi 1982-1983, A, bls. 2462.)

Samkvæmt framangreindri breytingartillögu meiri hluta fjárhags- og viðskiptanefndar neðri deildar skyldi á eftir 8. gr. stjórnarfrumvarpsins bætast við ný grein, sem yrði 9. gr., með tilheyrandi breytingu annarra greina frumvarpsins til samræmis við það, svohljóðandi:

"Heimil er opinber birting á þeim upplýsingum um álagða skatta, sem fram koma í skattskrá, svo og útgáfa þeirra upplýsinga í heild eða að hluta."

Breytingartillaga þessi var eins og áður segir flutt af meiri hluta fjárhags- og viðskiptanefndar, og var hún 4. tl. á þskj. 239. Í áðurgreindu nefndaráliti meiri hluta fjárhags- og viðskiptanefndar (þskj. 238) er vikið að því, að Tölvunefnd hafi komist að þeirri niðurstöðu, að óheimilt væri að gefa út skattskrár, en sú ákvörðun orki mjög tvímælis að mati fjármálaráðuneytis. Þá segir í nefndarálitinu, að ótvírætt sé að birting upplýsinga úr skattskrá og útgáfa hennar í heild sé til þess fallin að skapa bæði gjaldendum og skattyfirvöldum virkt aðhald og gegni slík birting að mörgu leyti sama tilgangi og framlagning skattskráa. Sé mikilvægt, að sá aðgangur, sem almenningur hafi haft að upplýsingum úr skattskrám á undanförnum áratugum, verði ekki þrengdur og þar með tekið fyrir þá umræðu um skattamál, sem gjarnan fylgi birtingu þessara upplýsinga.

Í framsöguræðu Friðriks Sóphussonar fyrir tillögu meiri hluta fjárhags- og viðskiptanefndar er vitnað til áðurgreindrar úrlausnar Tölvunefndar og sagt, að hún orki tvímælis. Síðan segir Friðrik orðrétt:

"En til þess að koma í veg fyrir misskilning og taka ákveðna afstöðu til þessa máls flytur meiri hl. þessa brtt. enda er nauðsynlegt að áliti meiri hl. að skattskráin geti legið fyrir og allir hafi aðgang að henni þegar endanlega hefur verið lagt á og kærufrestur er liðinn." (Alþingistíðindi 1983-1984, B3, d. 2731).

Svavar Gestsson, alþingismaður, vék að þessari breytingartillögu í þingræðu við umræðu málsins. Hann vitnaði til úrskurðar Tölvunefndar og eldri frumvarpa um framlagningu skattskráa, en sagði svo orðrétt:

"Ég tel að það hafi komið fram í umr. um þessi mál á Alþingi að verulegur hluti þm. var þeirrar skoðunar að rétt væri að birta álagningarskrár með öllum þeim fyrirvörum sem hafa ber við þær vegna þess að kærur hafa ekki verið sendar inn og alls konar skekkjur liggja fyrir... Ég held hins vegar að þessi till.... og Friðrik Sóphusson mælti fyrir... sé út af fyrir sig skýr svo langt sem hún nær og ég vil túlka hana með þeim hætti sem gert er í grg. með stjfrv.... í fyrra, þ.e. að verði þessi brtt. samþykkt sé heimilt að birta álagningarskrár á komandi sumri við útkomu tekju- og eignarskatts og auðvitað síðan í framhaldi af því skattskrá eftir að leiðréttingar liggja fyrir. Ef... Friðrik Sóphusson... telja að þessi túlkun af minni hálfu sé ekki rétt, hún gangi í raun og veru of langt og þess vegna sé röng sú túlkun sem kemur fram í grg. með stjfrv. sem ég las hér áðan, mundi ég telja óhjákvæmilegt að flytja brtt. við brtt. meiri hl. þar sem skýrt kæmi fram að heimilt væri að birta ekki aðeins skattskrá heldur einnig álagningarskrá... Þá mætti orða till. þannig: Heimil er birting á þeim upplýsingum um álagningu skatta og endanlega skatta sem fram koma í skattskrá, svo og útgáfa þeirra upplýsinga í heild eða að hluta. Þannig séu tekin í orðalaginu af öll tvímæli um að ekki sé einasta heimilt að birta endanlega skatta, heldur einnig álagninguna þegar hún liggur fyrir." (Alþingistíðindi 1983-1984, B3, d. 2790-2791).

Um þetta sagði Friðrik Sóphusson í svarræðu, að orðalag breytingartillögu meiri hluta nefndarinnar væri það sama og í frumvarpinu, sem flutt var á 105. löggjafarþinginu, þ.e. þinginu 1982-1983. Orðrétt sagði Friðrik:

"... þá er það rétt... að orðalagið er það sama og í frv. sem flutt var á 105. löggjafarþinginu, þ.e. þinginu 1982-1983. Ég hygg að það sé alveg ljós túlkun þessa ákvæðis að eingöngu sé um að ræða skattskrá, en skilgreining á því hugtaki mun vera sú að það sé skrá sem verður til eftir að kærufrestur er útrunninn. Reyndar varð sú breyting á með þeim lögum sem sett voru 1981 um tekjuskatt og eignarskatt að horfið var frá því ráði að gefa út álagningarskrár. Í stað þess var birt svokölluð skattskrá, en það er sú skrá sem búið er að leiðrétta eftir að kærufrestur hefur runnið út... Þetta held ég þess vegna að sé skilningur á því ákvæði sem um er að ræða, en það er brtt. í lið nr. 4 á þskj. 239." (Alþingistíðindi 1983-1984, B3, d. 2794).

Svavar Gestsson tók aftur til máls og sagði, að í svari Friðriks Sóphussonar hefði komið skýrt fram, að með því orðalagi, sem væri á brtt. meiri hlutans væri ekki gert ráð fyrir, að heimilt yrði að birta álagningarskrár heldur aðeins endanlegar skattskrár. Orðrétt sagði þingmaðurinn:

"Ég er þeirrar skoðunar að rétt sé að heimila birtingu á álagningarskrám, það stuðli að umr. um skattamál sem er jákvæð og þess vegna leyfi ég mér að leggja hér fram nýja brtt. við brtt. meiri hl. Það er till. sem flutt er af mér og hv. þm. Sighvati Björgvinssyni og er um að 4. tl. í brtt. meiri hl. fjh.- og viðskn. á þskj. 322 orðist..." (Alþingistíðindi 1983-1984, B3, d. 2797).

Tillaga þeirra Svavars og Sighvats var svohljóðandi, sbr. þskj. 345, þ.e. breytingartillaga við brtt. á þskj. 322:

"Á eftir 8. gr. komi ný grein sem orðist svo:

Aftan við 2. mgr. 98. gr. laganna komi nýr málsliður er orðist svo:

Heimil er opinber birting á þeim upplýsingum um álagningu og endanlega útkomu skatta sem fram koma í skattskrá svo og útgáfa þeirra upplýsinga í heild eða að hluta." (Alþingistíðindi 1983-1984, A3, þskj. nr. 345, bls. 1762).

Að 2. umræðu um frumvarpið lokinni fór fram atkvæðagreiðsla, að viðhöfðu nafnakalli, og var breytingartillaga á þskj. nr. 345, þ.e. tillaga þeirra Svavars Gestssonar og Sighvats Björgvinssonar, felld með 20 atkvæðum gegn 14. Einn þingmaður, Sighvatur Björgvinsson, gerði svofellda grein fyrir atkvæði sínu:

"Hæstv. fjmrh. var á síðasta Alþingi flm. að till. eins og þeirri sem hér liggur fyrir ásamt mér og hv. þm. Guðmundi J. Guðmundssyni. Ég treysti því að ef þessi deild ekki samþ. þessa till. geri hæstv. fjmrh. ráðstafanir til þess í Ed., þar sem hann á sæti, að hún verði þá samþykkt og standi þannig við afstöðu sína frá því á s.l. vetri. Ég segi já." (Alþingistíðindi 1983-1984, B3, d. 2884).

Um atkvæðagreiðslu eftir 2. umræðu í Neðri deild 15. febrúar 1984, 46. fundur, segir m.a. svo:

"... Brtt. 345 tekin aftur til 3. umr.

Brtt. 322,4 tekin aftur til 3. umr....

10. gr. (verður 8. gr.) samþ. með 23. shlj. atkv.

Fyrirsögn samþ. án atkvgr.

Frv. vísað til 3. umr. með 28 shlj. atkv.". (Alþingistíðindi, 1983-1984, B3, d. 2869).

Frumvarpinu var nú vísað til 3. umræðu. Guðrún Helgadóttir sagði svo við 3. umræðu um frumvarpið:

"Þetta var fyrra atriðið í máli hv. þm. Svavars Gestssonar. Hið síðara var um túlkun á þeirri till. sem hér liggur fyrir á þskj. 322, en hv. þm. lýsti því yfir að hann túlkaði hana þannig að samkv. henni væri heimilt að birta opinberlega álagningarskrár á komandi sumri við álagningu tekju- og eignarskatts og auðvitað síðan í framhaldi af því skattskrár eftir að leiðréttingar liggja fyrir. Ef þessi túlkun er hins vegar ekki rétt teljum við nauðsynlegt að leggja fram till. sem liggur fyrir á þskj. 345 og er brtt. við brtt. frá meiri hl. fjh.- og viðskn. Við viljum fá svör um það frá hæstv. fjmrh., hvort hann telji að sú túlkun okkar sé rétt að samkvæmt brtt. meiri hl. fjh. og viðskpn. megi gefa út álagningarskrá og skattskrá eftir leiðréttingu." (Alþingistíðindi 1983-1984, B3, d. 2882).

Um þetta sagði Albert Guðmundsson, fjármálaráðherra, svo í framhaldi af fyrirspurn þessari:

"Önnur spurningin var varðandi 4. lið í brtt. þeim sem eru á þskj. 322 og ég vona að það nægi sem svar að ég er sammála túlkun 2. þm. Reykv. á þeim lið..." (Alþingistíðindi 1983-1984, B3, d. 2882).

Í framhaldi af þessum umræðum lét Guðrún Helgadóttir eftirfarandi ummæli falla:

"Varðandi síðara atriðið af þeim tveimur spurningum sem ég lagði hér fyrir. Við stöndum auðvitað saman að þeirri brtt. sem liggur fyrir á þskj. 345. Það liggur nú fyrir að túlkun okkar á brtt. meiri hl. er ekki rétt, þannig að hún veitir ekki heimild til að birta endanlega álagningu eftir að skattkærur hafa farið fram. Við munum því halda til streitu brtt. sem liggur fyrir á þskj. 345." (Alþingistíðindi 1983-1984, B3, d. 2884).

Ólafur Ragnar Grímsson komst í framhaldi af þessu svo að orði í umræðunni:

"Eins og fram hefur komið í þessum umr. hefur verið lögð áhersla á það af hálfu Alþb. að fram komi skýrt að heimilt sé að birta skattskrá um leið og einstaklingum er kynnt álagningin. Mér fannst svar hæstv. fjmrh. vera nokkuð loðið þegar hann gaf svar við þeirri fsp. sem hv. þm. Guðrún Helgadóttir lagði fram. Væri þess vegna æskilegt, áður en þessari umr. lýkur, að fá skýr svör við því frá hæstv. fjmrh. hvort að hann styður þá brtt. sem hv. þm. Svavar Gestsson og Sighvatur Björgvinsson hafa lagt fram svo það liggi alveg ljóst fyrir áður en þessari umr. lýkur í ljósi þeirra góða undirtekta sem virtust vera í ræðu hv. ráðh. hvort það er ekki rétt skilið að hann styðji brtt." (Alþingistíðindi 1983-1984, B3, d. 2884).

Sighvatur Björgvinsson lét eftirfarandi ummæli falla í umræðunni:

"Ég vil aðeins að það komi fram að nákvæmlega sams konar till. og hér er rætt um var flutt á síðasta Alþingi, þá m.a. með stuðningi þess alþm. sem nú situr í sæti hæstv. fjmrh. Mér kemur því ekki til hugar annað en að hann muni sjá til þess að framkvæmdin verði með þeim hætti sem hann sjálfur lagði til á s.l. vetri." (Alþingistíðindi 1983-1984, B3, d. 2884).

Eftir þetta segir svo í Alþingistíðindum um atkvæðagreiðslu eftir 3. umræðu: (Alþingistíðindi 1983-1984, B3, d. 2884).

"Brtt. 322,4 (ný gr. verður 8. gr. samþ. með 30 shlj. atkv.

Frv. samþ. með 21 shlj. atkv. og afgr. til Ed."

Eftir 3. umræðu í neðri deild þann 15. febrúar 1984 var 8. gr. frumvarpsins svohljóðandi:

"Aftan við 2. mgr. 98. gr. laganna komi nýr málsliður er orðist svo:

Heimil er opinber birting á þeim upplýsingum um álagða skatta, sem fram koma í skattskrá, svo og útgáfa þeirra upplýsinga í heild eða að hluta."

Í efri deild 20. febrúar 1993 var við fyrstu umræðu ekkert vikið að því atriði, sem hér um ræðir, og var frumvarpinu vísað til 2. umræðu með 13 samhljóða atkvæðum og til fjárhags- og viðskiptanefndar með 13 samhljóða atkvæðum. (Alþingistíðindi 1983-1984, B3, d. 2952).

Við 2. umræðu vék framsögumaður meiri hluta fjárhags- og viðskiptanefndar efri deildar ekkert að umræddu málefni, en Ragnar Arnalds komst m.a. svo að orði:

"Í Nd. urðu nokkrar umræður um útgáfu skattskrár. Minni hl. fjh.- og viðskn. flutti í Nd. till. þar sem tekin voru af öll tvímæli um að útgáfa skattskrár væri bæði heimil eftir að álagning hefði farið fram og eins eftir að endanlega hefði verið gengið frá skattaálagningu... Mér er sagt að talsmenn ríkisstj. hafi haldið því fram að sú lagagr. sem samþ. var í Nd. væri að efni til þess eðlis. En hún er þannig: "Heimil er opinber birting á þeim upplýsingum um álagða skatta, sem fram koma í skattskrá, svo og útgáfa þeirra upplýsinga í heild eða að hluta." Með hliðsjón af þeim yfirlýsingum, að það orðalag sem hér um ræðir útiloki ekki að gefin sé út skattskrá strax og álagning hefur farið fram, sáum við ekki ástæðu til að endurtaka þann tillöguflutning. En ég vil nota þetta tækifæri persónulega til að lýsa yfir þeirri skoðun minni að það beri og það eigi að birta opinberlega upplýsingar um álagningu skatta strax og álagning hefur farið fram, því að það er tómt mál að tala um það, að birting skattskrár kannske hálfu eða einu ári eftir að álagning fer fram veki nokkurn áhuga almennings eða umr. eins og skattskrá á að gera og þarf að gera. Við þurfum á því að halda að almenningur hafi vakandi auga með því hvernig skattaálagning á sér stað og láti í ljós tilfinningu sína fyrir því hvort álagningin hafi verið réttlát eða ranglát. Allar tilraunir til að koma í veg fyrir það að almenningsálitið geti látið í sér heyra eftir að hafa kannað skattálagninguna eru fráleitar. Alþingi ber alveg hiklaust að tryggja það að útgáfa skattskrár eigi sér stað strax eftir að álagning fer fram. Það er von mín að þessi skilningur sé almennur hér á Alþingi og að ríkisstj. hafi í huga að framkvæma það ákvæði sem hér um ræðir á þann veg." (Alþingistíðindi 1983-1984, B3, d. 3800).

Ýmsar breytingartillögur komu fram við frumvarpið í efri deild, en engin varðandi þá grein frumvarpsins, sem hér um ræðir. Frumvarpinu var síðan vísað til 3. umræðu með 17 samhljóða atkvæðum. (Alþingistíðindi 1983-1984, B3, d. 3807).

Við 3. umræðu í efri deild tók enginn til máls. Frumvarpið var síðan samþykkt með 10 atkvæðum gegn fjórum og endursent neðri deild vegna annarra breytinga, sem á því höfðu verið gerðar í efri deild. (Alþingistíðindi 1983-1984, B3, d. 3869).

[...]Afstaða Tölvunefndar til skráningar [X] á upplýsingum um fjárhagsmálefni og til miðlunar þeirra upplýsinga.1.

Hér að framan er lýst efni og uppbyggingu skrár þeirrar um fjárhagsmálefni einstaklinga, sem tímaritið [X] birtir árlega. Er skrá tímaritsins eins og áður er fram komið unnin upp úr álagningarskrám þann tíma, sem þær skrár liggja frammi.

Tölvunefnd lítur svo á, að skráning og meðferð þeirra upplýsinga um fjárhagsmálefni einstaklinga, sem mynda grunn álagningar- og skattskráa, falli innan gildissviðs laga nr. 121/1989, um skráningu og meðferð persónuupplýsinga, sbr. 1. gr. þeirra, enda er í skrám þessum að finna margvíslegar upplýsingar, sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari. Af þessu leiðir, að meðferð þeirra upplýsinga, sem fram koma í álagningar- og skattskrám, lýtur ákvæðum laga nr. 121/1989 og þar með eftirlitsvaldi Tölvunefndar, að svo miklu leyti sem ákvæði sérlaga mæla ekki á annan veg.2.

Að áliti Tölvunefndar hefur umrædd skrá [X] að geyma persónuupplýsingar í skilningi 1. gr. laga nr. 121/1989, þ.e. upplýsingar um fjárhagsmálefni þeirra 650 einstaklinga, sem á skránni eru. Eins og uppbyggingu skrárinnar er háttað er hún kerfisbundin skrá í skilningi 2. mgr. 1. gr. laga nr. 121/1989. Samkvæmt 3. gr. sömu laga er kerfisbundin skráning persónuupplýsinga, sem 1. gr. tekur til, því aðeins heimil, að skráningin sé eðlilegur þáttur í starfsemi viðkomandi aðila og taki einungis til þeirra, sem tengjast starfi skráningaraðila eða verksviði. [X] er tímarit, sem gefið er út með reglulegu millibili nokkrum sinnum á ári. Er það sérrit um viðskipta-, efnahags- og atvinnumál, samkvæmt því sem fram kemur í tímaritinu sjálfu. Eins og aðrir fjölmiðlar hefur tímaritið ákveðnu upplýsingahlutverki að gegna gagnvart lesendum sínum. Til þess að sinna því hlutverki er ekki óeðlilegt, að tímaritið skrái að einhverju marki hjá sér upplýsingar úr opinberum skrám, sem aðgengilegar eru almenningi, og birti síðan þær upplýsingar. Lögmæti skráningar upplýsinganna í hverju tilviki og eftirfarandi birting þeirra hlýtur hins vegar að ráðast nánar af efni og umfangi skráningarinnar og þeim lagareglum, sem um skráningu og birtingu upplýsinganna gilda.3.

Eins og áður er fram komið var það niðurstaða Tölvunefndar hinn 18. júlí 1994 í tilefni fyrirspurnar [M], hdl., að þann tíma, sem álagningarskrár liggja frammi almenningi til sýnis, hafi fréttamenn sem aðrir aðgang að skránum. Taldi nefndin það ekki á valdi sínu að takmarka birtingu fjölmiðla á efni skránna þennan sama tíma.

Hinn 1. febrúar 1995 komst Tölvunefnd að niðurstöðu í máli fyrirtækisins... varðandi skráningu og birtingu upplýsinga, sem unnar eru upp úr álagningarskrám. Var það álit nefndarinnar, að skráning þess fyrirtækis og útgáfa í bókarformi á umræddum upplýsingum löngu eftir lok kærufrests álagningar samkvæmt skattalögum, væri því fyrirtæki óheimil. Skal í því sambandi sérstaklega áréttað, að fyrirtækið svaraði ekki þeirri fyrirspurn Tölvunefndar, í hvaða tilgangi umrædd útgáfa var fyrirhuguð.

Um heimild fjölmiðla til þess að birta upplýsingar, sem unnar eru úr álagningarskrám, eftir að kærufresti lýkur og álagningarskrá er ekki lengur aðgengileg almenningi, er til þess að líta, að samkvæmt 98. gr. skattalaga skulu skattstjórar hafa lokið álagningu á skattaðila eigi síðar en 30. júní ár hvert og auglýsa rækilega, að álagningu sé lokið. Kærufrestur er 30 dagar frá birtingu þeirrar auglýsingar. Skal skattstjóri leggja álagningarskrá fram til sýnis eigi síðar en 15 dögum fyrir lok kærufrests. Innan tveggja mánaða frá lokum kærufrests skal skattstjóri hafa úrskurðað kærur. Þegar kærumeðferð er lokið, skulu skattstjórar leggja fram skattskrá, og skal hún liggja frammi til sýnis í tvær vikur. Þá segir í lokamálslið 2. mgr. 98. gr., sem er 8. gr. laga nr. 7/1984, að heimil sé opinber birting á þeim upplýsingum um álagða skatta, sem fram koma í skattskrá, svo og útgáfa þeirra upplýsinga í heild eða að hluta.

Löggjafinn hefur samkvæmt framansögðu ákveðið að veita almenningi aðgang að upplýsingum um álögð gjöld, bæði í álagningarskrá og skattskrá, með því að leggja þær skrár fram til sýnis tiltekinn lögskipaðan tíma. Eins og áður segir verður aðgangur fjölmiðla að skránum umfram aðra ekki takmarkaður né skorður reistar við heimild þeirra til að birta efni skránna, meðan það er á annað borð almenningi aðgengilegt. Ber í þessu sambandi að hafa í huga, að umfjöllun fjölmiðla um skrárnar þann tíma, sem þær liggja frammi, getur eftir atvikum samrýmst þeim tilgangi, sem býr að baki framlagningu skránna, en þeim tilgangi er nánar lýst... hér að framan.4.

Tölvunefnd lítur svo á, að samkvæmt skattalögum takmarkist heimild fjölmiðla til að birta upplýsingar, sem unnar eru upp úr álagningarskrám, við þann tíma, sem þær liggja frammi almenningi til sýnis. Verður ekki séð, að opinber birting upplýsinga úr álagningarskrám eftir lok kærufrests, sé í samræmi við áðurgreind sjónarmið, sem að baki framlagningarskyldunni búa. Þvert á móti telur nefndin, að slík birting geti strítt gegn grundvallarreglum laga um friðhelgi einkalífs og persónuvernd, og skiptir þá ekki máli, hvort heldur upplýsingarnar eru gefnar út í bókarformi eða birtar í dagblöðum eða tímaritum. Verður ekki komið auga á þá hagsmuni, sem réttlætt geti slíka birtingu, sérstaklega þegar haft er í huga, að síðar birtast í skattskrá upplýsingar, sem eru réttari en upplýsingar álagningarskrár, þar sem skattstjóri hefur í skattskrá leiðrétt opinber gjöld manna og lögaðila.

Af því, sem rakið er... hér að framan um aðdragandann að setningu 8. gr. laga nr. 7/1984, má ráða, að markmið þeirrar lagasetningar var gagngert að koma í veg fyrir opinbera birtingu og útgáfu á þeim upplýsingum um álagða skatta, sem fram koma í álagningarskrám, ef frá er talinn sá tími, sem álagningarskrár liggja frammi. Því er það álit Tölvunefndar, að samkvæmt 98. gr. skattalaga nr. 75/1981, sbr. 8. gr. laga nr. 7/1984, sé heimild til útgáfu og sölu upplýsinga um álögð opinber gjöld takmörkuð við upplýsingar úr skattskrá.[5.]

Þegar sleppir sérákvæðum skattalaga um framlagningu álagningar- og skattskráa og um birtingu og útgáfu þeirra upplýsinga, sem þar koma fram, taka við hin almennu ákvæði laga nr. 121/1989, um skráningu og meðferð persónuupplýsinga, hvað þessi sömu atriði varðar.

Upplýsingar þær, sem mynda grunn álagningar- og skattskráa, eru að áliti Tölvunefndar upplýsingar um einkamálefni manna, sem falla undir 1. gr. sbr. e-lið 1. mgr. 4. gr. laga nr. 121/1989.

Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laganna er eigi heimilt að skýra frá upplýsingum þeim, sem greinir í 1. mgr. 4. gr., nema með samþykki hins skráða eða einhvers, sem heimild hefur til að skuldbinda hann. Ekki liggur fyrir, að tímaritið [...] hafi aflað sér heimildar hjá þeim 650 einstaklingum, sem hlut eiga að máli, til að birta umræddar persónuupplýsingar, eftir að kærufrestur samkvæmt 1. mgr. 98. gr. laga nr. 75/1981 rann út. Þá er það og ljóst, að [X] hefur ekki aflað sér heimildar Tölvunefndar samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 121/1989 til birtingar umræddra upplýsinga eftir lok kærufrests samkvæmt 1. mgr. 98. gr. laga nr. 75/1981, en Tölvunefnd getur heimilað slíka birtingu að fullnægðum þeim skilyrðum, sem nánar greinir í niðurlagsákvæði 2. mgr. 5. gr. laga nr. 121/1989.

Þegar litið er til þess, sem hér var rakið, er það álit Tölvunefndar, að hvorki ákvæði skattalaga nr. 75/1981 né heldur ákvæði laga nr. 121/1989 um skráningu persónuupplýsinga heimili tímaritinu [X] að birta upplýsingar um fjárhagsmálefni einstaklinga, sem unnar eru upp úr álagningaskrám, eftir að kærufresti samkvæmt 1. mgr. 98. gr. laga nr. 75/1981 lýkur.[6.]

Um þann þátt í kvörtun [M], héraðsdómslögmanns, sem lýtur að því, að honum hafi ekki verið gefið færi á að tjá sig um umsögn ríkisskattstjóra frá 26. september 1994, sem aflað var af hálfu Tölvunefndar áður en máli [M] var til lykta ráðið hið seinna sinni, skal þetta tekið fram.

Í 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir, að aðili máls skuli eiga þess kost að tjá sig um efni máls, áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft.

Tölvunefnd mat það svo, þegar henni barst umsögn ríkisskattstjóra, dags. 26. september 1994, að öll rök [M] í málinu lægju fyrir í gögnum þess, enda hafði [M] tvívegis verið gefinn kostur á að tjá sig skriflega um málið og skýra afstöðu sína, áður en Tölvunefnd tók ákvörðun í málinu hið seinna sinni.

Þá er þess að geta, að afstaða ríkisskattstjóra, sú er fram kemur í bréfi hans 26. september 1994, breytti í engu fyrri niðurstöðu Tölvunefndar í málinu, auk þess sem afstaða ríkisskattstjóra er nánast rakin orðrétt í seinni ákvörðun Tölvunefndar.

Tölvunefnd getur því ekki fallist á, að vöntun í þeim efnum að gefa [M] færi á að tjá sig um fyrrgreint bréf ríkisskattstjóra sé brot á 13. gr. laga nr. 37/1993."III.

1.

Hinn 15. júní 1994 rituðuð þér tölvunefnd bréf og segir þar m.a. svo:"Um nokkurt skeið hefur það tíðkast, að ýmsir fjölmiðlar birti lista yfir áætlaðar tekjur ýmissa einstaklinga í þjóðfélaginu. Upplýsingar þessar eru yfirleitt birtar í kjölfar framlagningar álagningarskrár og eru tekjuáætlanir byggðar á upplýsingum um álögð gjöld á viðkomandi einstaklinga samkvæmt áðurnefndri skrá. Svo virðist sem fjölmiðlar taki út ákveðna starfshópa og velji síðan úr þá einstaklinga, sem birta á upplýsingar um. Upplýsingarnar eru síðan birtar ár eftir ár í ákveðnum fjölmiðlum og jafnvel bornar saman við næsta ár á undan.

[...]

Með hliðsjón af því sem að framan er sagt, er þess farið á leit við Tölvunefnd, að hún láti í ljós álit sitt á lögmæti birtingar þeirrar upplýsinga um einkamálefni, sem hér hafa verið rakin..."Með umræddu erindi var ekki lagt tiltekið mál fyrir tölvunefnd, þar sem ákveðinn einstaklingur eða lögaðili taldi á rétt sinn gengið með tiltekinni birtingu fjölmiðils á upplýsingum um sig úr álagningarskrá, heldur var málið lagt fyrir tölvunefnd á mjög almennum grundvelli um rétt fjölmiðla til þess að fjalla um upplýsingar úr álagningarskrá. Svör tölvunefndar voru af þessum sökum almenn. Í bréfi tölvunefndar til yðar, dags. 18. júlí 1994, segir m.a. svo:"Samkvæmt þessu, og með vísun til þess að nefndin telur það hvorki vera á sínu valdi að takmarka aðgang fréttamanna að framangreindum skrám, né notkun þeirra eða birtingu á þeim upplýsingum sem þar koma fram, sér Tölvunefnd eigi efni til frekari afskipta hennar af máli þessu."Að yðar ósk var málið síðan tekið til nýrrar meðferðar. Með bréfi tölvunefndar til yðar, dags. 5. október 1994, gerði nefndin yður grein fyrir því, að hún teldi ekki ástæðu til að breyta fyrri afstöðu sinni til málsins.

Með bréfi, dags. 6. desember 1994, báruð þér, eins og fyrr segir, fram kvörtun við mig. Með vísan ákvæða 5. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, gerðuð þér grein fyrir hagsmunum umbjóðenda yðar af málinu, en af gögnum málsins kemur fram, að tímaritið [X] hefur meðal annars birt upplýsingar úr álagningarskrá um tekjur umbjóðenda yðar.

Kvörtun umbjóðenda yðar lýtur að svörum tölvunefndar við erindum þeirra frá 15. júní og 20. júlí 1994. Þar sem umbjóðendur yðar uppfylla skilyrði 2. mgr. 5. gr. laga nr. 13/1987, um umboðsmann Alþingis, mun ég taka kvörtun þeirra til meðferðar. Umfjöllun mín mun aftur á móti einskorðast við svör tölvunefndar við erindum umbjóðenda yðar frá 15. júní og 20. júlí 1994, þar sem önnur mál hafa ekki verið borin undir tölvunefnd með formlegum hætti. Af þessum sökum mun ég ekki taka afstöðu til birtingar tímaritsins [X] á upplýsingum um umbjóðendur yðar úr álagningarskrá.2.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 121/1989, um skráningu og meðferð persónuupplýsinga, taka lögin til hvers konar kerfisbundinnar skráningar og annarrar meðferðar á persónuupplýsingum. Með kerfisbundinni skráningu upplýsinga í skilningi laganna er átt við söfnun og skráningu ákveðinna og afmarkaðra upplýsinga í skipulagsbundna heild. Með persónuupplýsingum er aftur á móti átt við upplýsingar, sem varða einkamálefni, fjárhagsmálefni eða önnur málefni einstaklinga, stofnana, fyrirtækja eða annarra lögpersóna, sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari. Með tilliti til ákvæða 1. gr. umræddra laga er ég sammála þeirri afstöðu tölvunefndar, að upplýsingar, sem fram koma í álagningarskrá og skattskrá, falli undir ákvæði laga nr. 121/1989, um skráningu og meðferð persónuupplýsinga.

Í 98. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er gerður glöggur greinarmunur á álagningarskrá annars vegar og skattskrá hins vegar. Samkvæmt 1. mgr. 98. gr. laganna skulu skattstjóra semja og leggja fram til sýnis álagningarskrá eigi síðar en 15 dögum fyrir lok kærufrests skv. 99. gr. sömu laga. Jafnframt skal senda hverjum skattaðila tilkynningu um þá skatta, sem á hann hafa verið lagðir. Gefst þá skattaðilum færi á að bera mál undir skattstjóra skv. 99. gr. laganna, telji þeir skatt sinn eða skattstofn, þar með talin rekstrartöp, ekki rétt ákveðinn. Þegar skattstjórar hafa lokið að leggja úrskurð á þau mál, sem borin hafa verið undir þá á grundvelli 99. gr. laganna, skulu þeir semja og leggja fram skattskrá, er skal vera í samræmi við þær breytingar, sem gerðar hafa verið á álagningarskránni, með úrskurðum skattstjóra og öðrum löglegum úrræðum skattyfirvalda.

Þrátt fyrir að lög nr. 121/1989, um skráningu og meðferð persónuupplýsinga, gildi um skattskrá, er ótvírætt og óumdeilt, að heimilt er að birta opinberlega upplýsingar úr henni vegna niðurlagsákvæðis 2. mgr. 98. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 8. gr. laga nr. 7/1984, en það hljóðar svo:"Heimil er opinber birting á þeim upplýsingum um álagða skatta, sem fram koma í skattskrá, svo og útgáfa þeirra upplýsinga í heild eða að hluta."Aðrar reglur gilda aftur á móti um álagningarskrá. Í lögum nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt er ekki sambærilegt ákvæði um heimild til að birta og gefa út álagningarskrá. Þar sem lög nr. 121/1989, um skráningu og meðferð persónuupplýsinga, gilda um álagningarskrá, fer um meðferð þeirra upplýsinga, sem fram koma í skránni, eftir þeim lögum, að svo miklu leyti sem ekki er fyrir mælt á annan veg í öðrum lögum. Í því sambandi ber að minna á, að í 1. mgr. 98. gr. laga nr. 75/1981 er lögboðið, að leggja skuli álagningarskrá fram til sýnis. Í skjóli þessarar lagaheimildar hefur almenningur aðgang að álagningarskrá í tiltekin tíma. Ég er sammála tölvunefnd um, að á grundvelli þessa lagaákvæðis verði aðgangur fjölmiðla að álagningarskránni hvorki takmarkaður né skorður reistar við heimild þeirra til að birta efni álagningarskrár meðan hún er á annað borð aðgengileg almenningi á grundvelli þessarar lagaheimildar. Þegar sýningu álagningarskrár lýkur í skjóli þessa sérákvæðis, fer um aðgang að álagningarskrá og meðferð upplýsinga í skránni að öðru leyti samkvæmt þeim almennu reglum, er gilda um skráningu og meðferð persónuupplýsinga samkvæmt lögum nr. 121/1989.

Af framansögðu athuguðu tel ég ekki tilefni til athugasemda við þá afstöðu, sem fram kom hjá tölvunefnd í bréfum hennar til yðar, dags. 18. júlí og 5. október 1994, með tilliti til þeirra skýringa, sem fram komu hjá tölvunefnd í bréfi hennar til mín, dags. 27. apríl 1995.

Eins og mál þetta var lagt fyrir tölvunefnd, er ekki þörf á því að ég taki nánar til umfjöllunar þær réttarreglur, sem gilda um umfjöllun og meðferð upplýsinga úr álagningarskrá í fjölmiðlum, meðan álagningarskrá liggur frammi til sýnis skv. 1. mgr. 98. gr. laga nr. 75/1981.3.

Þá kvartið þér yfir meðferð tölvunefndar á máli þessu, meðal annars vegna þess að yður hafi ekki verið veitt færi á að tjá yður f.h. umbjóðenda yðar um umsögn ríkisskattstjóra frá 26. september 1994, sem aflað var af hálfu nefndarinnar, áður en erindi yðar var svarað. Teljið þér, að með þessu hafi verið brotið í bága við 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Með bréfi, dags. 18. júlí 1994, svaraði tölvunefnd erindi, sem þér höfðuð borið fram f.h. umbjóðenda yðar. Með bréfi, dags. 20. júlí 1994, óskuðuð þér eftir því við tölvunefnd að málið yrði endurskoðað. Með bréfi, dags. 15. ágúst 1994, gerði tölvunefnd yður grein fyrir því að nefndin hefði fallist á að endurupptaka málið. Með bréfi, dags. 24. ágúst 1994, óskaði tölvunefnd meðal annars eftir því við ríkisskattstjóra að hann gerði nefndinni skriflega grein fyrir afstöðu sinni til lögmætis þess að fjölmiðlar birti lista yfir áætlaðar tekjur ýmissa einstaklinga út frá upplýsingum um álögð gjöld í álagningarskrá. Svör ríkisskattstjóra bárust tölvunefnd með bréfi, dags. 26. september 1994.

Eins og rakið er hér að framan, fóruð þér fram á það við tölvunefnd f.h. umbjóðenda yðar, að hún léti "í ljós álit sitt á lögmæti birtingar þeirra upplýsinga" úr álagningarskrá, sem þér höfðuð gert grein fyrir að tíðkaðist. Með erindi umbjóðenda yðar var tölvunefnd því krafin um lögfræðilegt álit um túlkun ákvæða 1. mgr. 98. gr. laga nr. 75/1981 gagnvart lögum nr. 121/1981, án þess að það tengdist úrlausn tiltekins og fyrirliggjandi máls, sem umbjóðendur yðar voru aðilar að, en stjórnvöldum er í ýmsum tilvikum skylt að veita upplýsingar um réttarreglur á starfssviði þess. Eins og mál þetta var lagt fyrir tölvunefnd, tel ég, að í áliti tölvunefndar hafi ekki falist bindandi úrlausn um réttindi og skyldur umbjóðenda yðar í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Af þessum sökum giltu því ekki ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um meðferð tölvunefndar á erindi umbjóðenda yðar og þegar af þeirri ástæðu eru því ekki efni til þess að gera athugasemdir við umrædda málsmeðferð tölvunefndar, enda ekki upplýst að þér hafið sérstaklega óskað eftir aðgangi að svörum ríkisskattstjóra, en yður var kunnugt um erindi tölvunefndar til ríkisskattstjóra, þar sem yður hafði verið sent afrit af bréfi tölvunefndar til ríkisskattstjóra, dags. 24. ágúst 1994."