Skattar og gjöld. Árgjald fyrir notkun á norræna umhverfismerkinu.

(Mál nr. 6873/2012)

A hf. kvartaði yfir innheimtu og ráðstöfun á veltutengdu árgjaldi fyrir notkun á norræna umhverfismerkinu, því að tilteknum vörum væri dreift til nýrra foreldra í markaðstilgangi í samstarfi Umhverfisstofnunar og heilsugæslustofnana og því að Umhverfisstofnun hefði ráðist í kynningarverkefnið „Ágætis byrjun“, þar sem foreldrar væru hvattir til að velja umhverfisvottaðar vörur fram yfir aðrar vörur.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 30. mars 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í ljósi 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 taldi umboðsmaður rétt að A hf. freistaði þess að bera kvörtun sína, að því leyti sem hún varðaði ráðstöfun á veltutengdu árgjaldi, dreifingu vara og kynningarverkefnið „Ágætis byrjun“ undir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, sbr. 1. mgr. 31. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, og 24. gr. reglugerðar nr. 525/2006, um umhverfismerki, enda væri úrskurðarvald nefndarinnar ekki bundið við stjórnvaldsákvarðanir, sbr. 1. gr. laga nr. 130/2011, um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Þá fékk umboðsmaður ekki annað séð en að gjaldskrá nr. 393/2010, fyrir norræna umhverfismerkið, Svaninn, og síðar gjaldskrá nr. 1295/2011 um sama efni væru byggðar á lögum nr. 7/1998 og reglugerð nr. 525/2006 og að efni gjaldskránna fæli í sér framkvæmd á lögunum og reglugerðinni. Umboðsmaður taldi því ekki loku fyrir það skotið að kvörtunarefnið að þessu leyti félli undir 31. gr. laga nr. 7/1998 og taldi rétt að A hf. freistaði þess einnig að leita með þetta kvörtunarefni til úrskurðarnefndarinnar. Umboðsmaður lauk umfjöllun sinni um kvörtunina en tók fram að A hf. gæti leitað til sín að nýju teldi það úrlausn úrskurðarnefndarinnar óviðunandi.