Skattar og gjöld. Fjármagnstekjuskattur.

(Mál nr. 6870/2012)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og óskaði þess að hann tæki afstöðu til þess hvort löggjafinn hefði brotið stjórnarskrárvarinn eignarrétt dóttur sinnar, sem hefði nokkrum árum áður verið dæmdar bætur fyrir varanlega örorku vegna slyss, með því að mæla fyrir um álagningu 20% fjármagnstekjuskatts í lögum. A kvartaði einnig yfir því að tryggingastofnun hefði verið veitt heimild með lögum til að skerða bætur til fólks sem ætti meira en fjórar milljónir króna á reikningi og þar með hefðu réttindi dóttur hennar skerst. Þá óskaði A eftir svörum umboðsmanns við því hvort löggjafinn hafi gerst brotlegur við jafnræðisreglu stjórnarskrár þar sem tekjur dóttur hennar hefðu verið skertar mun meira en tekjur annarra.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 16. mars 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður gerði stutta grein fyrir lagaákvæðum um tekjutryggingu og uppbætur á lífeyri í lögum og tók fram að að því leyti sem kvörtunin lyti að lagaákvæðum og eftir atvikum öðrum þáttum sem löggjafinn hefði með skýrum hætti tekið afstöðu til væru ekki skilyrði til þess að hann gæti tekið efni kvörtunarinnar til athugunar, sbr. a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997. Þá tók umboðsmaður fram að ekki væru heldur lagaskilyrði til umfjöllunar um niðurstöðu dómstóls í bótamáli dóttur A, sbr. b-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997.

Í kvörtun A kom m.a. fram að setning reglugerðar nr. 661/2010, um útreiknings örorkulífeyris og tekjutryggingar hjá örorkulífeyrisþegum sem fengið hafa eingreiðslu skaðabóta, hefði ekki komið dóttur hennar að gagni vegna eignastöðu hennar. Kvörtuninni fylgdu hins vegar ekki gögn sem vörpuðu ljósi á hvort og þá til hvaða stjórnvalda A hefði leitað vegna þessa og þá hver svör þeirra hefðu verið. Í ljósi 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 taldi umboðsmaður því að afstaða úrskurðarnefndar almannatrygginga til þeirra forsendna sem tryggingastofnun lagði til grundvallar útreikningi bóta dóttur A þyrfti að liggja fyrir svo að hann gæti tekið málið til meðferðar að því leyti. Þar sem af kvörtuninni varð þó ráðið að óánægja A beindist fyrst og fremst að löggjöf og reglugerðarsetningu á sviði almannatrygginga án þess að beinar ákvarðanir lægju fyrir í máli dóttur hennar benti umboðsmaður henni á hún gæti komið athugasemdum sínum á framfæri við velferðarráðuneytið. Ef slíkt erindi leiddi til ákvörðunar um málefni dóttur hennar og dóttirin yrði ekki sátt við þær gæti hún leitað til sín að nýju.