Skattar og gjöld. Skattrannsókn.

(Mál nr. 6846/2012)

A kvartaði yfir áliti fjármálaráðuneytisins þess efnis að skattstjóri hefði farið að lögum og reglugerðarákvæðum þegar hann sendi skattrannsóknarstjóra ríkisins upplýsingar um mál fyrirtækis sem A var í forsvari fyrir vegna gruns um skattsvik, sem og að meðferð málsins hjá skattstjóra og skattrannsóknarstjóra hefði verið í samræmi við stjórnsýslulög nr. 37/1993.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 30. mars 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í ljósi 4. og 6. tölul. 8. gr. reglugerðar nr. 373/2001, um framkvæmd skatteftirlits og skattrannsókn, taldi umboðsmaður að þegar haft væri í huga að A hefði fyrir nokkrum árum hlotið dóm, þá sem forsvarsmaður annars fyrirtækis, fyrir að gefa rangar virðisaukaskattsskýrslur og einnig að teknu tilliti til þess að A hefði skilað virðisaukaskattskýrslu fyrir það fyrirtæki sem hann væri nú í forsvari fyrir þar sem innskattur hefði verið verulega hár miðað við framtalda skattskylda veltu, hefðu þessi atriði, metin í heild, gefið skattstjóra réttmætt tilefni til að líta svo á að sú aðstaða væri uppi að „grunur [væri] um skattsvik“ í skilningi 6. mgr. 26. gr. laga nr. 50/1998 hjá fyrirtækinu. Umboðsmaður gat auk þess ekki fallist á athugasemdir A um að ákvæði 4. tölul. 1. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 373/2001 væru of rúm og stæðust ekki lög og stjórnarskrá. Jafnframt fékk hann ekki séð að fullyrðing A um að stjórnvöld á lægra stjórnsýslustigi hefðu ekki beitt ákvæðum reglugerðar nr. 373/2001 og því væri tilvísun fjármálaráðuneytisins til hennar eftiráskýring væri rétt en tók þó fram að það hefði verið rétt og í betra samræmi við sjónarmið um vandaða stjórnsýsluhætti ef skattstjóri hefði vísað sérstaklega til viðkomandi ákvæða reglugerðarinnar í bréfaskiptum sínum við A. Með vísan til alls framangreinds taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við það mat fjármálaráðuneytisins að skattstjóri hefði farið að lögum og reglugerðarákvæðum þegar hann sendi skattrannsóknarstjóra ríkisins upplýsingar um málið eða við þá afstöðu ráðuneytisins að við meðferð málsins hjá skattstjóra hefði verið gætt meðalhófs.

Með tilliti til 94. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, 38. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, 25. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, og 12. gr. reglugerðar nr. 373/2001 og eins og atvikum var háttað í málinu taldi umboðsmaður enn fremur ekki að málsmeðferð skattrannsóknarstjóra hefði gengið lengra en nauðsynlegt var. Í því sambandi tók umboðsmaður fram að rannsókn málsins stóð ekki lengi yfir, eða í 12 daga eftir að tilkynnt var um upphaf rannsóknarinnar, og að tölvupóstar starfsmanna fyrirtækisins hefðu ekki verið opnaðir heldur hefðu eingöngu verið skoðuð heiti í efnislínum. Umboðsmaður fékk því ekki séð að meðalhófsregla stjórnsýsluréttar og 12. gr. stjórnsýslulaga hefðu verið brotnar í málinu. Að lokum fékk umboðsmaður ekki annað séð en að bæði skattstjóri og skattrannsóknarstjóri hefðu að fullu leyti gætt upplýsingaskyldu gagnvart A í málinu.

Umboðsmaður taldi ekki tilefni til að aðhafast frekar í málinu. Í tilefni af því að það tók ráðuneytið rúmlega ellefu mánuði að afgreiða mál A ákvað umboðsmaður þó að rita fjármálaráðherra bréf þar sem hann benti á málshraðareglu 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga og að eðlilegt væri og í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti að tilgreina frest til svara í umsagnarbeiðni, sbr. til hliðsjónar 2. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga, en í málinu hafði eingöngu verið óskað eftir umsögnum ríkisskattstjóra og skattrannsóknarstjóra um kvörtun A „eins fljótt og unnt væri“. Þá væri það í betra samræmi við sjónarmið um vandaða stjórnsýsluhætti að upplýsa aðila erindis um tafir stjórnvalds á afgreiðslu þess og ástæður fyrir töfunum með skriflegum hætti.