Skattar og gjöld. Tekjuskattur.

(Mál nr. 6892/2012)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis með erindi vegna fyrirkomulags skattlagningar á útteknum séreignarlífeyrissparnaði. A hafði verið tjáð að ef hann tæki út sparnaðinn þyrfti hann að greiða allt að 44% skatt af upphæðinni, en hann taldi sig eiga að greiða skatt af honum í samræmi við það skattaumhverfi sem lífeyririnn var tilkominn í, þ.e. 35-37%, og að jafnframt ætti að greiða fjármagnstekjuskatt af ávöxtunarupphæðinni sérstaklega, en ekki tekjuskatt af upphæðinni í heild sinni.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 16. mars 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður rakti ákvæði laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda og laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, og taldi ekki annað verða ráðið en að löggjafinn hefði tekið skýra afstöðu til þess að ekki bæri að skattleggja ávöxtun af lífeyrissparnaði sem fjármagnstekjur og jafnframt virtist enginn greinarmunur gerður í lögum á skattlagningu lífeyrisgreiðslna eftir því hvenær réttur til þeirra stofnaðist. Umboðsmaður taldi kvörtunina því lúta að fyrirkomulagi sem löggjafarvaldið hefði ákveðið að skyldi gilda um skattlagningu. Hann benti á að samkvæmt a-lið 3. gr. laga nr. 85/1997 tæki starfssvið umboðsmanns ekki til starfa Alþingis og því væri það almennt ekki á verksviði umboðsmanns að taka afstöðu til þess hvernig til hefði tekist um efni lagasetningar hjá Alþingi. Umboðsmaður taldi því bresta lagaskilyrði til þess að taka kvörtunina til frekari meðferðar og lauk afskiptum sínum af henni. Þá tók hann fram að kvörtunin gæfi sér ekki tilefni til að taka til athugunar hvort meinbugir væru á gildandi lagareglum, sbr. 5. og 11. gr. laga nr. 85/1997.