Svör við erindum. Efnisleg svör.

(Mál nr. 6944/2012)

A, sem var ólögráða fyrir æsku sakir, leitaði til umboðsmanns Alþingis með kvörtun yfir viðbrögðum innanríkisráðuneytisins við bréfi sem hún sendi ráðuneytinu í nóvember 2010 varðandi fjölskylduaðstæður sínar og beiðni um að fá að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við ráðuneytið vegna umgengni hennar við föður sinn. A var ósátt við að málshraða ráðuneytisins í málinu og að afstaða hennar til umgengninnar hefði verið verið virt.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 16. mars 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður vísaði til þess að hann hefði þegar, í tilefni af eldra máli sem hann hafði til athugunar, gert athugasemdir við þann tíma sem það tók ráðuneytið að svara erindi A. Þá benti umboðsmaður á að bréf A frá því í nóvember 2010 hefði verið hluti af gögnum í umgengnismálunum og tekið til skoðunar í tengslum við úrskurð sem kveðinn var upp í málinu. Því teldi hann ekki ástæðu til að gera athugasemdir við svör ráðuneytisins til A. Hann benti henni hins vegar á að faðir hennar gæti leitað til sín innan árs frá því að úrskurðurinn var kveðinn upp með sérstaka kvörtun vegna niðurstöðunnar og þannig væri unnt að leggja mat á meðferð ráðuneytisins á málinu, m.a. með hliðsjón af skoðunum A.