Svör við erindum.

(Mál nr. 6591/2011)

Hinn 17. ágúst 2011 kvartaði A yfir því að velferðarráðuneytið, Tryggingastofnun ríkisins og sveitarfélag sem hann var búsettur í hefðu ekki svarað tölvubréfum sem hann sendi 27. júlí og 11. og 17. ágúst 2011 vegna bágrar fjárhagsstöðu sinnar.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 26. mars 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Af gögnum málsins varð ráðið að mál A væri til meðferðar hjá velferðarráðuneytinu og því taldi umboðsmaður ekki skilyrði til að fjalla frekar um þann þátt kvörtunarinnar að svo stöddu. Hann leitaði hins vegar skýringa TR og sveitarfélagsins. Í skýringum TR til umboðsmanns kom fram að stofnunin teldi sig hafa svarað erindum A með bréfi, dags. 30. ágúst 2011, og tölvubréfi, dags. 15. september 2011. Í skýringum sveitarfélagsins kom fram að það teldi sig hafa svarað A með bréfi, dags. 12. október 2011. Umboðsmaður leitaði frekari skýringa hjá viðkomandi stjórnvöldum á því hvernig þau teldu sig hafa sinnt leiðbeiningarskyldu sinni samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 gagnvart A. Að fengnum þeim skýringum taldi umboðsmaður að mál A væri komið í réttan farveg hjá sveitarfélaginu, enda hefði félagsmálastjóri boðað komu sína til hans til að ræða þau úrræði sem væru í boði. Umboðsmaður leiðbeindi A þó um að ákvarðanir félagsþjónustu sveitarfélagins gæti hann borið undir úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála sbr. 64. gr. laga nr. 40/1991. Með vísan til þessa og þess að A hefðu borist svör frá TR við erindi sínu taldi umboðsmaður rétt að ljúka umfjöllun sinni um kvörtunina.