Utanríkismál.

(Mál nr. 6847/2012)

A kvartaði yfir starfsemi Evrópustofu og vísaði til þess að hún væri rekin fyrir fjárstyrki frá Evrópusambandinu en samkvæmt íslenskum lögum væri óheimilt að þiggja fé eða reka áróður fyrir fé sem fengið væri af erlendum aðilum til að hafa áhrif á pólitískt umhverfi hér á landi. Af kvörtuninni varð ráðið að A teldi starfsemina brjóta gegn kosningalögum og jafnræðisreglu.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 5. mars 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður benti A á að á heimasíðu Evrópustofu kæmi fram að hún væri rekin af A ehf. og þýska fyrirtækinu X í Berlín. Einnig kæmi fram að Evrópusambandið fjármagnaði reksturinn. Þá kæmi fram í svari utanríkisráðherra við fyrirspurn þingmanns að ráðuneytið hefði ekki samið um rekstur Evrópustofu og að slíkri ósk hefði ekki verið komið á framfæri við Evrópusambandið. Umboðsmaður fékk því ekki séð að Evrópustofa félli undir starfssvið sitt, sbr. 1. og 2. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, en af því leiddi starfssvið umboðsmanns næði ekki til stjórnsýslu annarra ríkja, alþjóðlegra stofnana eða erlendra sendiráða hér á landi og jafnframt næði það eingöngu til stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og til starfsemi þeirra einkaaðila sem fengið hefðu opinbert vald til að taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna í merkingu 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Umboðsmaður lauk því málinu en tók fram að A gæti að sjálfsögðu óskað eftir frekari upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu um hugsanlega aðkomu og afskipti ráðuneytisins af starfsemi Evrópustofu hér á landi og ef þar kæmu fram nýjar upplýsingar um aðkomu ráðuneytisins eða annarra íslenskra stjórnvalda að málinu væri honum frjálst að leita til sín að nýju.