A kvartaði yfir forsendum útreiknings á ellilífeyri og tekjutryggingu, nánar tiltekið því að lífeyrisgreiðslur sem hann fékk greiddar erlendis væru dregnar frá lífeyrinum og að frádráttur miðaðist við fjárhæð lífeyrisgreiðslnanna áður en dreginn væri af þeim skattur í heimalandi hans. A var einnig ósáttur við að aðrar tekjur væru dregnar frá ellilífeyri og að ekki væri tekið tillit til taps vegna slíkra eigna við útreikninginn.
Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 10. apríl 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.
Umboðsmaður tók fram að samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, tæki starfssvið umboðsmanns ekki til starfa Alþingis og því væri það almennt ekki í verkahring umboðsmanns að taka afstöðu til þess hvernig til hefði tekist með löggjöf settri af Alþingi. Þar sem þau atriði sem vikið var að í kvörtun A lutu öll að þáttum sem löggjafinn hafði með skýrum hætti tekið afstöðu til taldi umboðsmaður bresta skilyrði til að geta tekið málið til frekari athugunar.