Atvinnuleysistryggingar. Atvinnuleysisbætur.

(Mál nr. 6879/2012)

A kvartaði yfir breyttu verklagi Vinnumálastofnunar vegna verktakavinnu/reksturs á eigin kennitölu. Í kvörtun A kom m.a. fram að hann teldi breytinguna leiða til þess að einyrkjar væru sviptir rétti sínum frítekjumarks ef þeir selja vinnu sína á eigin kennitölu.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 25. apríl 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður fékk ekki annað ráðið en að umræddar breytingar á verklagi Vinnumálastofnunar væru í samræmi við efni laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, eftir að gildistími bráðabirgðaákvæðis VI í lögunum rann sitt skeið á enda. Þegar ákvæðið var sett leiddi af því að það var ekki lengur skilyrði fyrir greiðslu atvinnuleysisbóta til sjálfstætt starfandi einstaklinga að þeir hefðu stöðvað alla starfsemi sína heldur þurftu þeir eingöngu að tilkynna skattyfirvöldum um verulegan samdrátt í rekstri sínum sem hefði leitt til tímabundins atvinnuleysis. Ákvæðið var upphaflega sett í kjölfar þrenginga í efnahagslífinu árið 2008 og hafði afmarkaðan gildistíma sem hafði runnið sitt skeið á enda og því hafði verið horfið aftur til fyrri framkvæmdar. Kvörtunin beindist því að fyrirkomulagi ákveðnu af löggjafanum og þar sem starfssvið umboðsmanns tekur ekki til starfa Alþingis, sbr. a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, taldi umboðsmaður ekki skilyrði að lögum til að taka málið til frekari athugunar.