Atvinnuréttindi og atvinnufrelsi.

(Mál nr. 6972/2012)

A, sem starfaði sem veiðieftirlitsmaður, kvartaði yfir því að Fiskistofa heimilaði sér ekki að eiga bát sem gerður væri út til atvinnuveiða og sinna tilteknum störfum tengdum fiskveiðum.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 18. apríl 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður benti A á að af 20. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, og 1. gr. laga nr. 36/1992, um Fiskistofu, sbr. einnig a-lið 7. gr. forsetaúrskurðar nr. 125/2011, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í stjórnarráði Íslands, leiddi að hann gæti borið synjun stofnunarinnar á beiðni um að taka við launuðu starfi í þjónustu annars aðila eða stofna til atvinnurekstrar undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þar sem umboðsmaður fékk ekki ráðið af kvörtuninni að A hefði leitað til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins með umkvörtunarefni sitt taldi hann bresta skilyrði fyrir frekari umfjöllun um erindið að sinni, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, en tók fram að ef A hefði þegar leitað til ráðuneytisins eða kysi að leita þangað og yrði ósáttur við niðurstöðu ráðuneytisins í málinu gæti hann leitað til sín að nýju.