Fangelsismál. Upphaf afplánunar.

(Mál nr. 6958/2012)

A kvartaði yfir því að Fangelsismálastofnun ríkisins hefði beðið lögreglu um að handtaka sig og færa í fangelsi í kjölfar úrskurðar innanríkisráðuneytisins þar sem synjun stofnunarinnar á beiðni A um frestun afplánunar var staðfest. A taldi slíkt hafa verið óþarft og verulega íþyngjandi fyrir sig og fjölskyldu sína.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 18. apríl 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í ljósi 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 benti umboðsmaður A á að bera umkvörtunarefnið undir innanríkisráðuneytið, sbr. 1. gr. laga nr. 49/2005, um fullnustu refsinga, sbr. 2. tölul. b-liðar 5. gr. forsetaúrskurðar nr. 125/2011, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, og 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Að fenginni niðurstöðu þess gæti hann leitað til sín á ný væri hann þá enn ósáttur.