Kosningar.

(Mál nr. 6979/2012)

A kvartaði yfir fyrirkomulagi við rafrænar íbúakosningar í Reykjavík, nánar tiltekið yfir þeim auðkenningarkostum sem stóðu til boða í kosningunni, annars vegar rafrænum skilríkjum og hins vegar veflykli ríkisskattstjóra.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 30. apríl 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Af kvörtun A varð ekki ráðið að hann hefði vakið athygli Reykjavíkurborgar á þeim vanköntum sem hann taldi vera á fyrirkomulaginu. Með hliðsjón af þeim sjónarmiðum sem búa að baki 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, taldi umboðsmaður rétt að A beindi erindi sínu til borgarinnar áður en það yrði tekið til frekari athugunar. Kysi hann að gera það og yrði ósáttur við viðbrögð borgarinnar gæti hann leitað til sín á ný og þá yrði tekin afstaða til þess hvort rétt væri að málið kæmi til umfjöllunar á vettvangi annarra stjórnvalda, t.d. ráðuneytis, áður en umboðsmaður gæti fjallað um málið.