Menntamál. Grunnskólar.

(Mál nr. 6904/2012)

A kvartaði yfir ákvæði 1. gr. reglugerðar nr. 657/2011, um breytingu á reglugerð um miðlun og meðferð upplýsinga um nemendur í grunnskólum og rétt foreldra til aðgangs að upplýsingum um börn sín, nr. 897/2009. Hann taldi breytinguna veita grunnskólum sem hafa ákveðið að nota rafrænt upplýsingakerfi til þess að veita foreldrum aðgang að upplýsingum og til samskipta við þá of mikið svigrúm til að meta hvort orðið skuli við beiðni foreldris um að aðgangur að upplýsingum verði veittur með öðrum hætti.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi,dags. 25. apríl 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður fékk ekki annað séð en að setning reglugerðarinnar ætti sér viðhlítandi stoð í lögum og taldi því ekki tilefni til að aðhafast sérstaklega vegna kvörtunarinnar.