Opinberir starfsmenn. Laun og starfskjör.

(Mál nr. 6953/2012)

Hinn 20. mars 2012 kvartaði A yfir starfskjörum tiltekinna starfsmanna sveitarfélags. Í kvörtuninni kom m.a. fram að A hefði sem trúnaðarmaður umræddra starfsmanna leitað til bæjarstjóra og starfsmannastjóra og yfirmanna viðkomandi stofnunar sveitarfélagsins en ekki fengið svör eða önnur viðbrögð frá þeim.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 30. apríl 2012, með vísan til c-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í skýringum sveitarfélagsins til umboðsmanns kom fram að forstöðumaður stofnunarinnar hefði sent öllum starfsmönnum skriflega tilkynningu um málið 16. mars 2012 auk þess sem tölvupóstsamskipti hefðu átt sér stað á milli A og forstöðumannsins 16. og 17. mars 2012 í framhaldi af tilkynningunni. Jafnframt kom fram að sveitarfélagið teldi sig hafa svarað erindi A og að vinnutími starfsmanna væri í samræmi við kjarasamninga. Umboðsmaður fékk ekki betur séð en að kvörtun A lyti að starfskjörum hans og samstarfsmanna hans hjá sveitarfélaginu og því hvort fyrirkomulag starfa þeirra væri í samræmi við lög og samninga sem um það gilda. Hann tók því fram að með vísan til c-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997 hefði hann ekki talið rétt að fjalla um samningsbundin réttindi opinberra starfsmanna heldur yrði það að vera hlutverk dómstóla. Með vísan til þess og þar sem erindi A til sveitarfélagsins hafði verið svarað taldi umboðsmaður ekki grundvöll fyrir frekari afskiptum af málinu en benti A þó á að á grundvelli ýmissa kjarasamninga væru starfandi sérstakar samstarfsnefndir sem hefðu almennt það hlutverk að fjalla um framkvæmd og túlkun viðkomandi kjarasamnings og lausn ágreiningsmála. Væri slík nefnd starfandi á grundvelli þess kjarasamnings sem hann tæki laun eftir gæti hann freistað þess að vísa ágreiningnum þangað.