Opinberir starfsmenn. Starfslok.

(Mál nr. 6852/2012)

Stéttarfélag kvartaði fyrir hönd félagsmanns síns, A, yfir lokun réttargeðdeildar Landspítalans að Sogni og niðurlagningu starfa þar.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 10. apríl 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í ljósi þess að forstjóri Landspítala hafði, á grundvelli 50. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, framselt framkvæmdastjóra geðsviðs vald til þess m.a. að segja starfsmönnum upp störfum og veita rökstuðning fyrir uppsögn taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að gera athugasemdir við það hverjir hefðu staðið að ákvörðun um að leggja starf A niður. Þá taldi umboðsmaður að miðað við fyrirliggjandi upplýsingar í málinu væri ekki ástæða til að draga í efa að lögmætar ástæður hefðu legið til grundvallar þeirri ákvörðun að færa réttargeðdeildina að Sogni á Klepp. Þar sem A var tilkynnt um að Landspítalinn myndi aðstoða hana við að finna annað starf innan spítalans ef hún óskaði eftir því taldi umboðsmaður ekki unnt að fullyrða að Landspítalinn hefði brotið gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við töku ákvörðunar um niðurlagningu starfs hennar. Með vísan til skýringa Landspítalans, að virtum gögnum málsins og með tilliti til þess svigrúms sem forstöðumenn ríkisstofnana hafa í þessum efnum taldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við þá ákvörðun Landspítalans að leggja niður starf A á Sogni í tilefni af flutningi deildarinnar á Klepp.

Í ljósi efnis rökstuðnings Landspítalans til A, þar sem gerð var grein fyrir faglegum og rekstrarlegum rökum fyrir lokun deildarinnar, taldi umboðsmaður ekki ástæðu til aðhafast frekar vegna þess atriðis, að öðru leyti en að rita Landspítalanum bréf þar sem hann benti á að í rökstuðningi bæri að vísa til þeirra réttarreglna sem ákvörðun stjórnvalds er byggð á, sbr. 22. gr. stjórnsýsluaga nr. 37/1993, og því hefði verið rétt að gera stuttlega grein fyrir lagagrundvelli málsins, þ.e. 43. gr. laga nr. 70/1996, í rökstuðningnum sem A var veittur.