A, opinber starfsmaður, kvartaði yfir því að hafa ekki fengið að kjósa um kjarasamninga þrátt fyrir að hafa ítrekað óskað eftir því. Kvörtuninni fylgdu ekki gögn eða frekari upplýsingar um samskipti hans við stjórnvöld vegna málsins.
Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 18. apríl 2012, með vísan til c-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.
Umboðsmaður skildi kvörtun A á þá leið að hann væri ósáttur við að hafa ekki rétt til þátttöku í stéttarfélagi samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, þar sem starf hans teldist hlutastarf en ekki aðalstarf, sbr. 1. gr. laganna. Með vísan til þess að lög nr. 85/1997 byggðust á þeirri forsendu að um ákveðna verkaskiptingu milli umboðsmanns og dómstóla væri að ræða og að mál gætu verið þannig vaxin að heppilegra væri að leyst yrði úr þeim fyrir dómstólum, sbr. t.d. c-lið 3. mgr. 3. gr. og c-lið 2. mgr. 10. gr. laganna, og einnig með vísan til ákvæðis 2. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986, þar sem fram kemur að Félagsdómur dæmi um ágreining um félagsaðild þeirra sem undir lögin falla, taldi umboðsmaður eðlilegra að Félagsdómur fjallaði um málið og lauk því umfjöllun sinni um kvörtunina.