Persónuréttindi.

(Mál nr. 6920/2012)

A kvartaði yfir því að stjórnendur framhaldsskóla hefðu gert farsíma dóttur hennar upptækan vegna grunsemda um að hún hefði notað símann til að svindla á prófi, haldið símanum á meðan málið var til athugunar og hugsanlega skoðað upplýsingar í honum án heimildar.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 18. apríl 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997.

Í kvörtun A kom m.a. fram að málið væri til meðferðar hjá stjórnendum skólans og að hún hefði auk þess leitað til lögreglu vegna þess. Umboðsmaður fékk því ekki betur séð en að málið væri til umfjöllunar hjá viðkomandi stjórnvöldum. Hann benti A hins vegar á að ef málinu væri lokið af hálfu skólans gæti hún leitað til mennta- og menningarmálaráðuneytisins á grundvelli yfirstjórnunar- og eftirlitsheimilda þess, sbr. c-lið 3. gr. laga nr. 92/2008, um framhaldsskóla, sbr. A-lið 6. gr. forsetaúrskurðar nr. 125/2011, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. Hefði skólameistari tekið íþyngjandi ákvörðun á grundvelli aðgerðanna, svo sem vegna meints brots gegn skólareglum, væri slík ákvörðun jafnframt kæranleg til ráðuneytisins, sbr. d-lið 1. mgr. og 2. mgr. 33. gr. laga nr. 92/2008. Þá benti umboðsmaður á að ef málinu hefði verið vísað frá eða fellt niður hjá lögreglu væri slík ákvörðun kæranleg til ríkissaksóknara, sbr. 6. mgr. 52. gr. og 2. mgr. 147. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, sbr. bráðabirgðaákvæði við lögin. Í ljósi 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 taldi umboðsmaður sér ekki unnt að taka málið til athugunar að svo stöddu en benti A á að ef hún teldi sig enn rangindum beitta að fenginni endanlegri úrlausn mennta- og menningarmálaráðuneytisins og/eða ríkissaksóknara gæti hún leitað til sín að nýju. Þá gæti hún leitað til sín með sérstaka kvörtun ef málinu væri enn ólokið hjá framangreindum stjórnvöldum og dráttur yrði á svörum þeirra.