Sjávarútvegsmál.

(Mál nr. 6936/2012)

A, sjómaður sem stundaði handfæraveiðar, leitaði til umboðsmanns Alþingis og óskaði álits á því hvort brotið hefði verið gegn rétti hans samkvæmt 71., 72. og 75. gr. stjórnarskrárinnar með fækkun sóknardaga.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 18. apríl 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður rakti tiltekin ákvæði í lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, og benti á að athugasemdir A beindust að efni lagareglna sem settar hefðu verið af Alþingi. Umboðsmaður tók fram að samkvæmt lögum nr. 85/1997 væri almennt ekki gert ráð fyrir að umboðsmaður Alþingis fjallaði um hvernig til hefði tekist um efni lagasetningar hjá Alþingi, sbr. 3. gr. laganna. Þannig væri ekki ætlast til þess að umboðsmaður fjallaði um það hvort Alþingi hefði sett reglu sem færi í bága við stjórnarskrána og milliríkjasamninga sem Ísland ætti aðild að. Þá taldi umboðsmaður ekki rétt að nýta sér heimild sína samkvæmt 11. gr. laga nr. 85/1997 til að taka til athugunar hvort meinbugir væri á umræddum lögum.