Skattar og gjöld. Auðlegðarskattur.

(Mál nr. 6921/2012)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir því að álagning auðlegðarskatts fæli í sér eignaupptöku og þar með stjórnarskrárbrot.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 18. apríl 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður rakti efni bráðabirgðaákvæðis XLVII í lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, og benti á að athugasemdir í kvörtun A beindust að efni lagareglu settri af Alþingi. Umboðsmaður tók fram að samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997 tæki starfssvið umboðsmanns ekki til starfa Alþingis og því væri það almennt ekki í sínum verkahring að taka afstöðu til þess hvernig til hefði tekist með löggjöf sem Alþingi hefði sett, þ. á m. hvort Alþingi hefði í ákveðnu tilviki sett reglu sem færi í bága við stjórnarskrána og milliríkjasamninga sem Ísland er aðili að. Þá taldi umboðsmaður ekki rétt að nýta sér heimild sína til að taka til athugunar hvort meinbugir væru á lögunum, sbr. 11. gr. laga nr. 85/1997, m.a. þar sem fyrir lá að tiltekinn þingmaður hefði beint fyrirspurn til fjármálaráðherra um hliðstæð atriði og komu fram í erindi A, sbr. 483. mál á 140. löggjafarþingi.