Skattar og gjöld. Fasteignagjöld.

(Mál nr. 6940/2012)

A kvartaði yfir því að Vestmannaeyjabær hefði ákveðið að fella niður fasteignagjöld af íbúðarhúsnæði eldri borgara vegna ársins 2012 og fór fram á að umboðsmaður veitti sér álit á því hvort ákvörðun sveitarfélagsins samrýmdist jafnræðisreglu stjórnarskrár og góðum stjórnsýsluháttum.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 30. apríl 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður tók fram að í erindi A kæmi ekki fram hvort hann ætti sérstakra hagsmuna að gæta af álitaefninu og benti á að það væri ekki hlutverk sitt að láta í té almennar álitsgerðir, heldur fjalla um kvartanir út af því að stjórnvöld hefðu ekki í ákveðnum tilvikum farið að lögum eða ekki fylgt vönduðum stjórnsýsluháttum í störfum sínum. Í ljósi 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 og 4. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, benti umboðsmaður A jafnframt á að ef hann teldi sig eiga sérstakra hagsmuna að gæta vegna ákvörðunar sveitarfélagsins gæti hann vísað ágreiningi um gjaldstofn fasteignaskatts til úrskurðar Þjóðskrár Íslands og að þeim úrskurði væri unnt að skjóta til yfirfasteignamatsnefndar. Enn fremur væri hægt að bera ágreining um gjaldskyldu undir yfirfasteignamatsnefnd. Úrskurðum nefndarinnar mætti síðan skjóta til dómstóla. Umboðsmaður taldi ekki skilyrði til að fjalla um kvörtunina að sinni en tók fram að A gæti leitað til sín að nýju að fengnum úrskurði yfirfasteignamatsnefndar ef hann teldi sig enn beittan rangsleitni og einnig ef dráttur yrði á svörum þeirra stjórnvalda sem hann kynni að leita til.