Skattar og gjöld. Höfundaréttargjöld.

(Mál nr. 6951/2012)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og óskaði upplýsinga um hvort veitingastað væri heimilt að hafa kveikt á útvarpi til þess að fylgjast með fréttum og veðri án þess að greiða STEF-gjöld, þ.e. höfundaréttargjöld vegna opinbers flutnings á tónverkum.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 10. apríl 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður tók fram að það væri ekki hlutverk umboðsmanns Alþingis að láta í té almennar álitsgerðir eða svör við almennum fyrirspurnum um gildandi rétt heldur að fjalla um kvartanir út af því að stjórnvöld hefðu ekki í ákveðnum tilvikum farið að lögum eða ekki fylgt vönduðum stjórnsýsluháttum í störfum sínum. Því taldi umboðsmaður ekki skilyrði að lögum fyrir því að fjalla frekar um spurninguna sem kom fram í bréfi A. Umboðsmaður lauk umfjöllun sinni um málið en benti A á að hún gæti freistað þess að bera spurninguna undir mennta- og menningarmálaráðuneytið sem færi með mál er varða höfundarétt, sbr. G-lið 6. gr. forsetaúrskurðar nr. 125/2011, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, auk þess sem mennta- og menningarmálaráðherra hefði, á grundvelli 4. mgr. 23. gr. höfundalaga nr. 73/1972 staðfest gjaldskrá STEFs vegna flutnings tónverka utan útvarps, nr. 101/1993 þar sem m.a. væri fjallað um gjaldtöku af veitinga- og gistihúsum.