Skattar og gjöld. Vatnsgjald.

(Mál nr. 6943/2012)

A kvartaði yfir því að álagning Orkuveitu Reykjavíkur á vatnsgjaldi vegna fasteignar hans gengi gegn úrskurði innanríkisráðuneytisins, dags. 20. janúar 2012, þar sem ákvörðun OR um álagningu gjaldsins var felld úr gildi.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 18. apríl 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Eftir að A lagði kvörtunina fram höfðaði OR einkamál á hendur honum til ógildingar á úrskurði ráðuneytisins og til greiðslu málskostnaðar að skaðlausu. Umboðsmaður taldi þau atriði sem kvörtun A laut að vera þess eðlis að almennt yrði að ætla að um þau yrði fjallað í dómsmálinu. Í ljósi b-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997, þar sem fram kemur að starfssvið umboðsmanns taki ekki til starfa dómstóla, taldi umboðsmaður ekki skilyrði til þess að fjalla frekar um kvörtun A á þessu stigi máls. Umboðsmaður tók hins vegar fram að að fenginni endanlegri niðurstöðu dómstóla í málinu gæti A leitað til sín að nýju og hann myndi þá taka afstöðu til þess, með hliðsjón af starfssviði sínu, að hvaða leyti sér væri fært að fjalla um málið. Með vísan til b-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997 gat umboðsmaður ekki heldur tekið afstöðu til athugasemda sem A gerði við þann málatilbúnað OR að höfða málið gegn sér persónuleg en stefna ríkinu ekki. Hann benti A hins vegar á að hann gæti sótt um gjafsókn vegna málshöfðunarinnar, sbr. XX. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Umboðsmaður tók í því sambandi fram að hann hefði ekki tekið afstöðu til þess hvort A uppfyllti skilyrði gjafsóknar en ef A færi þá leið og teldi sig beittan órétti með afgreiðslu umsóknarinnar gæti hann leitað til sín með sérstaka kvörtun þar að lútandi.