Svör við erindum. Kvartanir eða kærur til æðri stjórnvalda eða eftirlitsstofnana.

(Mál nr. 6820/2012)

Hinn 10. janúar 2011 kvartaði A yfir töfum á afgreiðslu innanríkisráðuneytisins á tveimur kvörtunum, dags. 18. október 2010, annars vegar vegna þátttöku tiltekins starfsmanns sveitarfélags í afgreiðslu á máli sem A átti þar til meðferðar og hins vegar yfir því að stjórn sveitarfélagsins hefði ekki brugðist við kvörtun hans yfir einelti viðkomandi starfsmanns í sinn garð, og stjórnsýslukæru, dags. 29. nóvember s.á., sem beindist m.a. að niðurlagningu á stöðu hans hjá sveitarfélaginu.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 18. apríl 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í skýringum innanríkisráðuneytisins til umboðsmanns kom fram að erindunum tveimur hefði nú verið svarað með álitum, dags. 22. febrúar 2012, og að þann sama dag hefði einnig verið úrskurðað vegna stjórnsýslukærunnar. Umboðsmaður taldi því ekki ástæðu til að aðhafast frekar vegna kvörtunarinnar en ritaði innanríkisráðherra bréf þar sem hann gerði athugasemdir við þær tafir sem urðu á meðferð málsins í ráðuneytinu og benti á að þess þyrfti að gæta að skýra málsaðila frá fyrirsjáanlegum töfum á afgreiðslu máls og þá jafnframt veita honum upplýsingar um hvenær ákvörðunar væri að vænta.