Svör við erindum. Kvartanir eða kærur til æðri stjórnvalda eða eftirlitsstofnana.

(Mál nr. 6986/2012)

A kvartaði yfir því að afgreiðsla máls, sem hún lagði fyrir áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema, hefði legið niðri þar sem skipunartími nefndarinnar hefði runnið út 1. apríl 2012 og ný nefnd hefði ekki verið skipuð.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 30. apríl 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í skýringum mennta- og menningarmálaráðuneytisins til umboðsmanns vegna málsins kom fram að ráðuneytið hafi skipað nýja nefnd 17. apríl 2012 og að skipun nefndarinnar hefði dregist vegna tafa hjá þeim sem tilnefna áttu fulltrúa til setu í nefndinni. Umboðsmaður lauk málinu en tók fram að ef afgreiðsla málsins drægist hjá nefndinni gæti A leitað til sín hjá ný og sömuleiðis ef hún teldi sig enn beitta órétti að fenginni niðurstöðu nefndarinnar. Þá ritaði umboðsmaður mennta- og menningarmálaráðherra bréf þar sem hann minnti á að áður hefði borist sams konar kvörtun vegna dráttar sem varð á skipun umræddrar nefndar og kom á framfæri tilteknum ábendingum í því skyni að fyrirbyggt yrði að það endurtæki sig. Nánar tiltekið benti hann ráðuneytinu á að hefja undirbúning að skipun nefndarinnar fyrr svo að tilnefningaraðilum gæfist rýmri tími til að ganga frá tilnefningum og að gera þeim skýra grein fyrir lögbundnum hæfisskilyrðum þeirra sem taka ættu sæti í nefndinni.