Svör við erindum. Umsóknir og ákvörðunartaka.

(Mál nr. 6897/2012)

Hinn 20. febrúar 2012 kvartaði A yfir því hafa ekki borist svör frá ríkisskattstjóra við erindi sem sent var embættinu með bréfi, dag. 15. nóvember 2011, og ítrekað með bréfi, dags. 16. janúar 2012. Í erindinu fór A fram á endurupptöku máls þar sem beiðni hennar um að álagning opinberra gjalda fyrir árin 2007, 2008 og 2010 yrði tekin til endurskoðunar var synjað.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 18. apríl 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í skýringum ríkisskattstjóra til umboðsmanns vegna málsins kom fram að erindið hefði verið afgreitt 6. mars 2012. Umboðsmaður taldi því ekki tilefni til þess að fjalla frekar um kvörtun A og lauk athugun sinni. Hann benti A þó á að ef hún væri ósátt við úrskurð ríkisskattstjóra í málinu eða kysi að óska eftir endurskoðun málsins á grundvelli frekari gagna, eins og ríkisskattstjóri hafði leiðbeint henni um, og yrði í framhaldinu ósátt við úrskurð embættisins gæti hún freistað þess að leita til yfirskattanefndar með kæru þar að lútandi, sbr. 2. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Yrði hún ósátt við úrlausn yfirskattanefndar gæti hún leitað til sín á ný.