Svör við erindum. Umsóknir og ákvörðunartaka.

(Mál nr. 6910/2012)

A kvartaði yfir töfum á afgreiðslu sýslumannsins í Reykjavík á beiðni sem hún lagði fram 5. ágúst 2011 um niðurfellingu veðréttinda samkvæmt 12. gr. laga nr. 50/2009, um tímabundna greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 25. apríl 2012.

Í skýringum sýslumanns kom fram að málið hefði nú verið tekið til afgreiðslu og málsaðilum sent bréf þar sem óskað væri eftir frekari upplýsingum. Þar sem málið var komið í farveg taldi umboðsmaður ekki tilefni til að aðhafast frekar í tilefni af kvörtuninni. Hann tók þó fram að A gæti leitað til sín á ný ef frekari tafir yrðu á málinu hjá sýslumanni og vakti jafnframt athygli hennar á að unnt væri að leita úrlausnar fyrir dómstólum um ágreining sem risi um ráðstafanir samkvæmt 12. gr. laga nr. 50/2009 eftir sömu reglum og gilda um úrlausn ágreinings um gildi nauðungarsölu. Umboðsmaður ákvað einnig að rita sýslumanninum í Reykjavík bréf þar sem hann gerði athugasemdir við þær tafir sem urðu á afgreiðslu málsins.