Svör við erindum. Umsóknir og ákvörðunartaka.

(Mál nr. 6917/2012)

Hinn 2. mars 2012 kvartaði A yfir því að hafa ekki borist ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu uppbótar vegna lækna- og lyfjakostnaðar. Úrskurðarnefnd almannatrygginga hafði fellt úr gildi synjun stofnunarinnar á umsókn A með úrskurði, dags. 19. ágúst 2011, og vísað málinu heim til nýrrar meðferðar.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 18. apríl 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í skýringum tryggingastofnunar til umboðsmanns vegna málsins kom fram að 30. desember 2011 hefði verið óskað eftir því við A að hún legði fram upplýsingar um útgjöld til þess að unnt væri að taka ákvörðun um greiðslurnar. A hefði lagt fram gögn sem innihéldu sömu upplýsingar og áður höfðu borist en ekki lagt fram gögn sem sýndu fram á raunverulegan kostnað af rekstri bifreiðar. Skorað hefði verið á hana að framvísa upplýsingunum með bréfi, dags. 30. mars 2012. Umboðsmaður fékk því ekki betur séð en að málið væri enn til meðferðar og taldi sér því, í ljósi 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997, ekki unnt að taka málið til meðferðar að svo stöddu. Hann lauk athugun sinni á málinu en tók fram að færi svo, að fenginni niðurstöðu tryggingastofnunar, að A leitaði á ný til úrskurðarnefndar almannatrygginga, en teldi sig enn beitta rangindum að fenginni úrlausn nefndarinnar, gæti hún leitað til sín á nýjan leik.