Svör við erindum. Viðbrögð við úrskurði æðra stjórnvalds eða áliti umboðsmanns.

(Mál nr. 6895/2012)

Hinn 22. febrúar 2012 barst umboðsmanni kvörtun frá A yfir því að biskup Íslands hefði ekki brugðist við gagnvart sér í tilefni áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 5778/2009. Í því áliti komst umboðsmaður að þeirri niðurstöðu að biskup Íslands hefði ekki sýnt fram á að heildstæður samanburður hefði farið fram á umsóknum A og annars umsækjanda um prestsembætti á grundvelli sjónarmiða sem mælt var fyrir um í gildandi reglum og í samræmi við kröfur sem leiða af grundvallarreglum stjórnsýsluréttarins. A hafði ritað biskupi bréf, dags. 29. ágúst 2011, í tilefni af álitinu og ítrekað það erindi 29. september 2011. A óskaði þess einnig að umboðsmaður legði til við ráðherra að sér yrði veitt gjafsókn til málshöfðunar fyrir dómstólum.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 30. apríl 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í skýringum biskups til umboðsmanns kom m.a. fram að dregist hefði að svara erindi A og hefði hann verið beðinn velvirðingar á því og boðið viðtal. Umboðsmaður tók fram að í áliti sínu í máli nr. 5778/2009 hefði hann sett fram almenn tilmæli en ekki tilmæli um endurupptöku á máli því sem laut að umræddri embættisskipun eða um að rétta hlut A. Umboðsmaður taldi ekki tilefni til að taka sérstaklega til athugunar hvernig biskup hefði brugðist við erindum sem A sendi honum í kjölfar álitsins og áréttaði að það væri úrlausnarefni dómstóla að taka afstöðu til hugsanlegrar skaðabótaskyldu vegna annmarka á starfsháttum stjórnvalda. Þá tók umboðsmaður fram að eingöngu hefði verið talið koma til greina að beita heimild umboðsmanns til að hlutast til um gjafsókn í tilvikum þegar stjórnvald hefði ekki farið að tilmælum umboðsmanns en um það væri ekki að ræða í máli A. Hann benti A hins vegar á að ef hann hygðist höfða dómsmál vegna málsins gæti hann sjálfur óskað eftir gjafsókn hjá innanríkisráðuneytinu Í ljósi þessa og þar sem biskup Íslands hafði nú brugðist við erindum A frá 29. ágúst og 29. september 2011, taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að aðhafast frekar í tilefni af kvörtuninni.