Umhverfismál.

(Mál nr. 6916/2012)

A kvartaði yfir meðferð Þingvallanefndar á málefnum hans sem leigutaka á sumarhúsalóð. Af erindinu varð ráðið að umkvörtunarefnin tengdust endurnýjun á lóðarleigusamningi sem A gerði við Þingvallanefnd.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 18. apríl 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í ljósi 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 taldi umboðsmaður rétt að A leitaði eftir afstöðu forsætisráðuneytisins til málsins, sbr. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 47/2004, um þjóðgarðinn á Þingvöllum, sbr. einnig 10. tölul. d-liðar 1. gr. forsetaúrskurðar um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, nr. 125/2011. Umboðsmaður tók fram að þar hefði hann einnig í huga að Þingvallanefnd starfaði á vegum Alþingis en samkvæmt a-lið 3. gr. laga nr. 85/1997 tæki starfssvið umboðsmanns ekki til starfa Alþingis og stofnana þess. Umboðsmaður taldi því rétt að afstaða forsætisráðuneytisins lægi fyrir áður en hann tæki frekari afstöðu til þess hvort og í hvaða mæli hann gæti fjallað um málefni Þingvallanefndar.