Aðgangur að gögnum og upplýsingum. Aðgangur að gögnum á grundvelli upplýsingalaga.

(Mál nr. 7011/2012)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og spurði hvort takmarkanir væru í lögum á fjölda ráðuneyta sem einn og sami ráðherra gæti farið með og óskaði jafnframt upplýsinga um laun nafngreinds ráðherra.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 25. maí 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður benti á að af 2. og 4. gr. laga nr. 85/1997 leiddi að það væri ekki hlutverk hans að láta í té almennar álitsgerðir heldur að fjalla um kvartanir sem lúta að því að stjórnvöld hafi ekki í ákveðnum tilvikum farið að lögum eða ekki fylgt vönduðum stjórnsýsluháttum í störfum sínum. Umboðsmaður taldi því ekki skilyrði til þess að fjalla um fyrirspurn A en vakti athygli hans á því að að hann gæti freistað þess að óskað eftir aðgangi að upplýsingum um launakjör ráðherrans hjá hlutaðeigandi ráðuneyti, sbr. 3. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996 og, eftir atvikum úrskurðarnefnd um upplýsingamál, sbr. 14. gr. laganna. Teldi hann, að fenginni niðurstöðu nefndarinnar, á rétt sinn hallað ætti hann þess kost að leita til sín á ný með sérstaka kvörtun þar að lútandi.