Almannatryggingar. Sjúkra- og slysatryggingar.

(Mál nr. 6947/2012)

A kvartaði yfir synjun Sjúkratrygginga Íslands á umsókn hans um lyfjaskírteini.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 21. maí 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Af upplýsingum sem umboðsmaður aflaði frá úrskurðarnefnd almannatrygginga í tilefni af kvörtuninni varð ekki ráðið að A hefði borið synjun Sjúkratrygginga Íslands undir nefndina eins og honum hafði verið leiðbeint um af hálfu stofnunarinnar. Í ljósi 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 taldi umboðsmaður sér því ekki fært að taka málið til frekari athugunar. Þar sem fyrir lá að kærufrestur vegna ákvörðunarinnar var liðinn vakti umboðsmaður athygli A á að ef hann teldi skilyrðum 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 fullnægt gæti hann freistað þess að óska eftir því að úrskurðarnefndin tæki kæru hans engu að síður til meðferðar. Þá benti umboðsmaður A einnig á að hann gæti lagt fram nýja umsókn hjá Sjúkratryggingum Íslands og þá eftir atvikum borið synjun sjúkratrygginga undir úrskurðarnefnd almannatrygginga. Umboðsmaður lauk athugun sinni málinu en tók að lokum fram að ef A færi þá leið að leita til úrskurðarnefndarinnar með málið gæti hann leitað til sín á nýjan leik að fenginni niðurstöðu nefndarinnar.