Almannatryggingar. Sjúkra- og slysatryggingar.

(Mál nr. 7005/2012)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir því að Sjúkratryggingar Íslands hefðu hætt að taka þátt í ferðakostnaði einstaklinga sem þurfa á frjósemismeðferð að halda. Í kvörtuninni kom fram að eina fyrirtækið sem sérhæfði sig í tækni- og glasafrjóvgunum hér á landi væri staðsett í Reykjavík og það leiddi til þess að þeir sem búsettir væru á landsbyggðinni fyndu verulega fyrir kostnaði vegna ferða í meðferðina. A taldi fyrirkomulagið fela í sér mismunun á grundvelli búsetu.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 31. maí 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Í ljósi 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 taldi umboðsmaður rétt að A leitaði til úrskurðarnefndar almannatrygginga með málið, sbr. 7. gr. reglugerðar nr. 917/2011, um þátttöku sjúkratrygginga í kostnaði við tæknifrjóvganir sem veittar eru án samnings við Sjúkratryggingar Íslands, sbr. einnig 36. gr. laga nr. 112/2008, um sjúkratryggingar. Umboðsmaður lauk meðferð sinni á málinu en tók fram að ef A kysi að leita til úrskurðarnefndarinnar gæti hún að sjálfsögðu leitað til sín á ný ef hún teldi sig enn beitta rangindum að fengnum úrskurði nefndarinnar.