Atvinnuleysistryggingar. Atvinnuleysisbætur.

(Mál nr. 6996/2012)

A kvartaði yfir ákvörðun Vinnumálastofnunar um að stöðva greiðslu atvinnuleysisbóta til sín og gera sér að sæta tveggja mánaða biðtíma þar sem hún hefði hafnað 37% starfi við hreingerningar.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 25. maí 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Af erindi A og gögnum málsins varð ráðið að hún hefði kært ákvörðunina til velferðarráðuneytisins en einnig lagt fram kæru hjá kærunefnd jafnréttismála yfir því að Vinnumálastofnun hefði aðeins boðið konum starfið. Umboðsmaður tók fram að samkvæmt 2. mgr. 11. gr. laga nr. 54/2006, um atvinnuleysistryggingar, væri það úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða sem kvæði upp úrskurði um ágreiningsefni sem kynnu að rísa á grundvelli laganna en hugsanlegt væri að velferðarráðuneytið hefði þegar framsent kæru A til nefndarinnar á grundvelli 2. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í ljósi 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 taldi umboðsmaður nauðsynlegt að A aflaði úrskurðar nefndarinnar áður en hann tæki málið til frekari athugunar. Jafnframt taldi hann þörf á að niðurstaða kærunefndar jafnréttismála lægi fyrir áður en frekari ákvörðun yrði tekin um afdrif málsins. Umboðsmaður lauk málinu en tók fram að ef A teldi sig beitta rangsleitni að fenginni niðurstöðu úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða eða kærunefndar jafnréttismála eða ef meðferð á máli hennar drægist úr hófi ætti hún kost á að leita til sín á nýjan leik með sérstaka kvörtun þar að lútandi.