Atvinnuréttindi og atvinnufrelsi. Kennsluréttindi.

(Mál nr. 7002/2012)

A kvartaði yfir meðferð mennta- og menningarmálaráðuneytisins á umsóknum hans um kennsluréttindi. Í kvörtun A kom fram að hann hefði lagt fram fjórar umsóknir, þ.e. um réttindi til kennslu í grunnskóla og í þremur greinum í framhaldsskóla, og verið veitt leyfi til kennslu í grunnskóla og í tiltekinni kennslugrein á framhaldsskólastigi. Hinum tveimur umsóknunum hefði hins vegar verið synjað. Í kjölfar frekari samskipta A við ráðuneytið hefði verið samþykkt að taka mál hans fyrir að nýju á fundi matsnefndar leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla en hann hefði óskað eftir frestun á fyrirtöku málsins um óákveðinn tíma þar sem honum fyndust vinnubrögð ráðuneytisins ófagleg og vantreysti afgreiðslu þess á málum sínum.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 25. maí 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður rakti ákvæði laga nr. 87/2008, um menntun og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla og reglugerðar nr. 241/2009, um matsnefnd leikskóla-, grunnskóla- og framhaldsskólakennara. Af þeim taldi umboðsmaður ljóst að umsögn matsnefndarinnar væri lögbundinn undanfari niðurstöðu ráðherra í málum þar sem vafi léki á um hvort skilyrðum fyrir útgáfu leyfis til að mega starfa sem kennari væri fullnægt. Þar sem samþykkt hafði verið að taka umsóknir A fyrir á ný í nefndinni taldi umboðsmaður ekki annað verða ráðið en að til stæði að taka nýja ákvörðun í máli hans. Með vísan til þess taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að aðhafast frekar vegna kvörtunar A að svo stöddu og lauk meðferð sinni á málinu. Hann tók hins vegar fram að A gæti leitað til sín á nýjan leik að fenginni niðurstöðu mennta- og menningarmálaráðuneytisins í málinu væri hann þá enn ósáttur við niðurstöðuna eða meðferð málsins.