A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir því að innanríkisráðuneytið hefði synjað beiðni hans um endurveitingu lögmannsréttinda á þeim grundvelli að bú hans hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta á árinu 2011. A benti m.a. á að skiptum á búi hans hefði ekki lokið með úthlutun heldur hefði þeim lokið þar sem allir kröfuhafar hefðu afturkallað kröfur sínar í búið.
Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 31. maí 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.
Umboðsmaður rakti að á meðal skilyrða fyrir veitingu lögmannsréttinda væri að viðkomandi hefði aldrei sætt því að bú hans hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta en frá því mætti þó víkja að fengnum meðmælum Lögmannafélags Íslands ef umsækjandi hefði haft forræði á fé sínu þrjú undanfarin ár. Umboðsmaður gat ekki fallist á það túlkun innanríkisráðuneytisins á skilyrðinu væri í bersýnilegri andstöðu við orðalag þess og benti á að í úrskurði héraðsdómara samkvæmt 71. gr. laga nr. 21/1991 fælist að bú skuldara væri tekið til gjaldþrotaskipta sem síðan gæti, eftir atvikum, lokið á fleiri en einn hátt. Þá fékk umboðsmaður ekki fundið því stað í ákvæðinu sjálfu eða lögskýringargögnum að ætlun löggjafans með setningu þess hefði verið að lögmenn, sem misst hefðu foræði bús síns, hefðu jafnframt þurft að hafa verið „gerðir upp“ til þess að teljast ekki uppfylla starfsskilyrði það sem kveðið væri á um í ákvæðinu. Umboðsmaður taldi sig því ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við niðurstöðu ráðuneytisins í máli A.
Þá benti umboðsmaður á að samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997 tæki starfssvið umboðsmanns ekki til starfa Alþingis. Því væru ekki skilyrði til umfjöllunar um það kvörtunarefni A að mismunur á stöðu annars vegar lögmanna sem hefðu misst forræði á búi sínu og hins vegar lögmanna sem hefðu fengið samþykkta umsókn um greiðsluaðlögun eða sætt árangurslausu fjárnámi fæli í sér brot á jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrár. Engu að síður tók hann fram að staða þeirra væri efnislega ólík lögum samkvæmt.
Að lokum taldi umboðsmaður, eins og atvikum málsins var háttað og að virtum gögnum þess, ekki tilefni til að taka til athugunar athugasemd A um að tiltekinn starfsmaður innanríkisráðuneytisins hefði ekki verið hæfur til meðferðar málsins þar sem hann væri yfirmaður deildar í ráðuneytinu sem aðrar kvartanir A til umboðsmanns hefðu beinst að eða aðrar athugasemdir A við málsmeðferð ráðuneytisins.