Eignir ríkisins.

(Mál nr. 6961/2012)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir því að eingöngu sumum húseigendum á tiltekinni jörð í ríkiseigu væri gert að greiða lóðarleigu. Hann hafði leitað til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins vegna málsins og fengið svör sem hann var ósáttur við.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 21. maí 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður taldi að af bréfi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins til A vegna málsins yrði ekki öðru vísi ályktað en að ráðuneytið féllist á að umrætt fyrirkomulag væri ekki í samræmi við óskráða meginreglu stjórnsýsluréttar um jafnræði. Einnig kom fram í bréfinu að unnið væri að stofnun lóða til þess að unnt væri að ganga frá leigusamningum við húseigendur á jörðinni en til þess þyrfti deiliskipulag að liggja fyrir. Á meðan ekki væri unnt að stofna lóðir á jörðinni kæmi að mati ráðuneytisins til greina að staðfesta réttindi þeirra húseigenda sem ekki hefðu formlega leigusamninga og til að gæta jafnræðis hygðist ráðuneytið af því tilefni innheimta leigugjald. Þar sem umboðsmaður fékk ekki annað séð en að af 2. mgr. 34. gr. jarðalaga nr. 81/2004, sbr. III. kafla laga nr. 6/2001, um skráningu og mat fasteigna, leiddi að stofnun lóða í Fasteignaskrá Íslands væri forsenda gerðar leigusamnings um lóð úr ríkisjörð og að slíkur samningur yrði að vera í samræmi við ákvæði skipulagslaga taldi umboðsmaður að ekki kynni að vera óeðlilegt að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hefði hingað til ekki innheimt lóðarleigugjald hjá öðrum einstaklingum sem ættu hús á jörðinni þegar aðstæður væru með þeim hætti að lóðir fyrir hús þeirra hefðu ekki verið stofnaðar í fasteignaskrá, enda hlyti slíkt gjald taka mið af því að kominn væri á lóðarleigusamningur á milli aðila. Umboðsmaður taldi sig því ekki hafa forsendur til að gera athugasemdir við svör sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins til A og þar með ekki tilefni til að aðhafast út af kvörtun hans. Hann vakti hins vegar athygli A á að hann gæti leitað til ráðuneytisins og fengið upplýsingar um það hvort það hefði eða mundi á næstunni innheimta lóðarleigugjald hjá viðkomandi húseigendum.