Félagsþjónusta sveitarfélaga.

(Mál nr. 6612/2011)

A kvartaði yfir því að úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála hefði staðfest ákvörðun sveitarfélags um að synja sér um fjárhagsaðstoð. A vísaði jafnframt til þess að í úrskurðinum hefði ekki verið tekin afstaða til þeirrar kröfu hans að fá afturvirka fjárhagsaðstoð miðað við tiltekið tímamark.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 21. maí 2012, með vísan til a-liðar 2. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Með hliðsjón af reglum viðkomandi sveitarfélags um fjárhagsaðstoð taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að gera athugasemdir við þá niðurstöðu úrskurðarnefndar félagsþjónustu og húsnæðismála í máli A að staðfesta synjunina á þeim grundvelli að A hefði haft tekjur umfram viðmiðunarmörk reglnanna. Umboðsmaður lauk því athugun sinni á málinu.

Þar sem ekki lá fyrir hvort skriflegu erindi, sem A sendi sveitarfélaginu eftir að það synjaði umsókninni og varðaði beiðni hans um að sér yrði veitt fjárhagsaðstoðin afturvirkt, hefði verið svarað minnti umboðsmaður á þá óskráðu reglu að hver sá sem ber fram skriflegt erindi eigi rétt á því að fá skriflegt svar nema svars sé ekki vænst. Jafnframt áréttaði umboðsmaður mikilvægi þess að erindi af umræddum toga yrðu felld í farveg sem mælt væri fyrir um í lögum nr. 40/1991, um félagsþjónustu sveitarfélaga, og að þeim sem í hlut ætti væri veitt nauðsynleg aðstoð og leiðbeiningar við að sækja formlega um fjárhagsaðstoð til sveitarfélagsins, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.