A óskaði eftir áliti umboðsmanns Alþingis á því hvort nánar tilgreind ákvæði í lögum nr. 31/1991, um kyrrsetningu, lögbann o.fl. og lögum nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl. stæðust siðferði og þá alþjóðlegu mannréttindasamninga sem Ísland er aðili að.
Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 16. maí 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.
Umboðsmaður tók fram að samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 85/1997 tæki starfssvið umboðsmanns Alþingis ekki til starfa Alþingis og því væri það almennt ekki í verkahring umboðsmanns að taka afstöðu til þess hvernig til hefði tekist með löggjöf settri af Alþingi. Þá taldi umboðsmaður ekki tilefni til þess að neyta heimildar sinnar til að taka til athugunar að eigin frumkvæði hvort meinbugir væru á lögunum, sbr. 5. og 11. gr. laga nr. 85/1997. Umboðsmaður taldi ekki skilyrði til að fjalla frekar um kvörtunina og lauk málinu.