Greiðsluaðlögun og eignaráðstöfun.

(Mál nr. 6532/2011)

A leitaði til umboðsmanns Alþingis og kvartaði yfir því að umboðsmaður skuldara hefði hafnað því að aðstoða sig við að fá afhent frumrit skuldabréfa sem stóðu til tryggingar veðskulda er höfðu hvílt á fasteign í hans eigu. A og B höfðu fengið samþykkta umsókn um eignaráðstöfun samkvæmt lögum nr. 103/2010, um tímabundið úrræði einstaklinga sem eiga tvær fasteignir til heimilisnota. Í samræmi við niðurstöðu veðhafafundar höfðu skuldabréf sem hvíldu á 2. og 3. veðrétti verið afmáð af eigninni og lífeyrissjóður sem átti kröfu á 1. veðrétti leyst eignina til sín og síðan selt hana. Lífeyrissjóðurinn og sparisjóður, sem átti veðréttindin sem voru afmáð, neituðu hins vegar að afhenda A og B frumrit skuldabréfanna. A kvartaði einnig yfir því að erindum þeirra B til umboðsmanns skuldara hefði ekki verið svarað og óskaði aðstoðar við að fá frumrit skuldabréfanna afhent.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu með bréfi, dags. 31. maí 2012, með vísan til 1. mgr. 10. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis.

Umboðsmaður benti á að skuldbindingum A og B hefði lokið í samræmi við lög nr. 103/2010 og eigendur skuldabréfanna lýst því yfir að þeir ættu ekki lengur kröfu á þau á grundvelli bréfanna. Þá yrði ráðið af fyrirliggjandi gögnum málsins að kaupandi eignarinnar hefði tekist á hendur skuldbindingar samkvæmt skuldabréfinu með skuldaraskiptum.

Að virtum lögum nr. 103/2010 og lögskýringargögnum að baki þeim og einnig að virtum ákvæðum laga nr. 100/2010, um umboðsmann skuldara, taldi umboðsmaður að embætti umboðsmanns skuldara og umsjónaraðili með eignaráðstöfun samkvæmt lögum nr. 103/2010 hefðu ekki heimild að lögum til að þvinga einkaaðila, s.s. fjármálafyrirtæki og lífeyrissjóði, til að afhenda frumrit skuldabréfa. Umboðsmaður Alþingis gerði því ekki athugasemdir við að embætti umboðsmanns skuldara og umsjónarmaðurinn hefðu ekki gengið lengra í aðstoð sinni fyrir A og B en þau gerðu. Umboðsmaður taldi það verða að vera ákvörðun A hvort hann leitaði til dómstóla til að knýja á um afhendingu frumritanna en benti honum á að unnt væri að sækja um gjafsókn á grundvelli XX. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Í tilefni af samskiptum A við Fjármálaeftirlitið vegna málsins tók umboðsmaður fram að hann teldi, að virtu því lagaumhverfi sem gildir um eftirlit Fjármálaeftirlitsins með lífeyrissjóðum, ekki forsendur til að gera athugasemdir við meðferð Fjármálaeftirlitsins á málinu. Stofnunin hafði aflað upplýsinga um málið hjá lífeyrissjóðnum. Að fengnum þeim upplýsingum að sjóðurinn hefði lýst yfir skuldleysi A við sig og að annar aðili hefði tekið lánið yfir var ekki talið tilefni til að aðhafast frekar. Þá taldi umboðsmaður ekki forsendur til að aðhafast vegna þeirrar afstöðu Fjármálaeftirlitsins að það hefði ekki vald til að úrskurða í einstökum ágreiningsmálum eða skera úr um réttindi og skyldur aðila að einkarétti eða ágreiningi um sönnun málsatvika.

Umboðsmaður Alþingis lauk athugun sinni á málinu en ákvað þó að rita umboðsmanni skuldara bréf þar sem hann gerði athugasemdir við að tölvubréfi A til embættisins tilgreindan dag hefði ekki verið svarað. Í bréfinu minnti umboðsmaður á óskráða meginreglu stjórnsýsluréttarins um að skriflegum erindum skuli svara skriflega nema ljóst sé að svars sé ekki vænst. Hann tók fram að hann teldi það ekki hafa þýðingu þótt tölvubréfið hefði verið ítrekun á erindi sem A og B hefðu áður beint til embættisins með óformlegum hætti og benti á að ekki væri unnt að skilja tölvubréfið á annan hátt en að fæli í sér beiðni um að erindinu yrði svarað skriflega. Umboðsmaður taldi að tölvubréfinu hefði átt að svara skriflega og benti á að slíkt væri nauðsynlegt skilyrði eðlilegra samskipta almennings og stjórnvalda og þess trausts sem stjórnvöld yrðu að njóta hjá almenningi. Hann benti umboðsmanni skuldara á að gæta þessa framvegis í störfum sínum.